151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni kærlega fyrir andsvarið. Mig langar að byrja að segja varðandi þetta með loftslagsaðgerðirnar, að ég hef tekið eftir því í umræðunni hjá okkur hve mikil áhersla er á hversu marga milljarða við leggjum í málið, eins og það sé eini mælikvarðinn á það sem við höfum til málanna að leggja. Ég er á þeirri skoðun, jafn mikilvægt og það er til þess að við uppfyllum skilyrði okkar, þá sé hérna um að ræða tækifæri sem fáar ef nokkrar þjóðir hafa í nýsköpun, að nýta þá sérstöðu sem við höfum vegna náttúru okkar til að vera í fararbroddi. Ég sakna þess að sjá þess ekki stað í menntastefnu, í stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki og í samspili stjórnvalda og atvinnulífsins. Mér hefur þótt þessi ríkisstjórn ganga sérstaklega langt fram í því að nálgast þessi mál með boðvaldi ofan frá frekar en að líta svona á þetta. En það er önnur saga.

Mér finnst það rétt athugasemd hjá hv. þingmanni hversu sérstakt það er að þess skuli ekki sjá stað í þessum plöggum ríkisstjórnarinnar, þ.e. þau útgjöld sem boðuð hafa verið, þessar viðbætur. En það rennir kannski stoðum undir það sem sagt er að hér gera menn sér væntingar, stjórnarflokkarnir, íhaldsflokkarnir þrír, að starfa saman að loknum kosningum og klára málið. En þetta hefði væntanlega átt að vera hér. Og svo ég fái að varpa boltanum aftur til hv. þingmanns sem hefur mögulega fylgst betur með umræðunni og mögulega spurt fjármálaráðherra eða formann fjárlaganefndar um málið: Þekkir hann til þess hver ástæðan er fyrir því að þetta er ekki þarna?