151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[19:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í síðari ræðu minni um fjáraukalagafrumvarpið koma aðeins inn á atvinnuleysið og atvinnumálin. Nú er það þannig að veruleg upphæð fer í atvinnuleysisúrræði, þ.e. atvinnuleysistryggingar, og að auki styrki til þess að endurráða í fyrra starfshlutfall, sumarstörf fyrir námsmenn og ráðningarstyrk með atvinnuleitendum, sem er gott úrræði. Allt eru þetta ágætisúrræði en þau kosta peninga, verið er að setja í þetta tæpa 10 milljarða.

Þá kemur maður að því: Hvað er ríkisstjórnin að gera til að reyna að bæta stöðu fyrirtækjanna í landinu, sem eru jú lykillinn að því að fjölga hér störfum? Það er alveg ljóst að það er stóra verkefnið. Að vinna bug á atvinnuleysinu er stóra verkefnið sem blasir við og er fram undan. Ég verð að segja að það eru mikil vonbrigði að í fjármálaáætluninni, sem er nýbúið að samþykkja í þinginu, er ekki komið með nein úrræði til þess að fjölga hér störfum. Það er einungis horft til ferðaþjónustunnar og þess að hún eigi að redda öllu. Það eru spár um komu ferðamanna, sem er mjög hæpið að muni rætast, það hefur komið fram af hálfu ferðaþjónustuaðila sem komu á fund fjárlaganefndar. Og Hagstofan gerir áfram ráð fyrir miklu atvinnuleysi á næsta ári.

Það sem er líka áhyggjuefni í þessu og kom fram í umsögn fjármálaráðs við fjármálaáætlun er svokallað kerfislægt atvinnuleysi sem er með þeim hætti að þeir sem eru að leita sér að vinnu fá ekki starf við sitt hæfi. Þetta er vaxandi áhyggjuefni sem verður að taka á og fjármálaráð ræddi sérstaklega þegar farið var yfir fjármálaáætlun. Það verður líka að átta sig á því að við þurfum að búa fyrirtækjunum þannig starfsumhverfi að þau séu samkeppnishæf og þá líka á erlendum vettvangi. Erlend fjárfesting er okkur mjög mikilvæg einmitt til að fjölga störfum og þá erum við að keppa við mörg ríki, nágrannaríki okkar. Hér hefur kom fram í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um alþjóðamál að við stöndum okkur frekar illa þegar kemur að tvísköttunarsamningum miðað við önnur ríki. Allt skiptir þetta máli þegar horft er á þær aðstæður sem við búum þeim fyrirtækjum sem vilja koma hingað og hefja starfsemi.

Þetta er stóra verkefnið, atvinnuleysið, og ég vona svo sannarlega að við berum gæfu til þess að fjölga hér störfum. Það er ákaflega mikilvægt. Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að bæta starfsumhverfi fyrirtækja. Hann hefur komið með tillögur um að lækka tryggingagjald varanlega. Þessar tillögur hafa því miður allar verið felldar. Sú lækkun tryggingagjalds sem ríkisstjórnin hefur lagt til hér er einungis tímabundin og mun ekki leysa þann vanda sem við blasir. Þetta vil ég leggja áherslu á, herra forseti, varðandi atvinnumálin.

Ég ætla að koma hér í lokin inn á alþjóðlegu þróunarsamvinnuna, vegna þess að tíminn er að renna út og rétt að halda sig innan tímamarka, vegna þess að forseti fylgist vel með því að ég geri það, það er náttúrlega hans verksvið. Við setjum 250 millj. kr. til að hækka framlög vegna bóluefnis o.s.frv., sem er gott mál. En ég vil þó segja það að í fjárlögunum setjum við t.d. 700 millj. kr. til Malaví, sem er eitt af samstarfslöndum okkar. Þar viðgengst hátt hlutfall barnahjónabanda. Við þurfum svo sannarlega að vekja athygli stjórnvalda í þessum löndum, Malaví, Úganda, Síerra Leóne og Líberíu, á því að við fylgjumst vel með því að þau vinni gegn barnahjónaböndum og limlestingum kvenna. Ég segi það að lokum, herra forseti, að við eigum að leggja áherslu á þetta þegar við veitum fjármuni til þessara landa.