151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[19:32]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hér var hv. formaður velferðarnefndar að kynna nefndarálit með breytingartillögu sem ég er á og snýr að því að aðstoða námsmenn. Það er í raun og veru fáránlegt að minni hlutinn þurfi að vera með þessa breytingartillögu, að þetta sé ekki hluti af breytingartillögum meiri hlutans til að tryggja það að námsmenn fái atvinnuleysisbætur, alveg eins og atvinnulausir fá að fara í nám. Námsmenn hafa verið að vinna meðfram námi og eiga það inni í þessum sjóði að fá aðgang að atvinnuleysisbótum þegar þeir lenda í erfiðleikum eins og núna í Covid.

Mig langaði til að ræða aðeins um atvinnuleysi og það ástand sem er uppi í dag. Við sjáum núna í fréttum að Vinnumálastofnun hefur svipt 350 atvinnuleitendur tímabundið eða alfarið atvinnuleysisbótum síðustu tvo mánuði. Það er út af því að fólk hefur hafnað störfum. Vinnumálastofnun virðist svo vera í hálfgerðri fjölmiðlaherferð til að brýna fyrir fyrirtækjum að láta stofnunina vita ef fólk á atvinnuleysisbótum þiggur ekki vinnu. Afsakið orðbragðið, forseti, en hvaða rugl er þetta eiginlega? Hvers konar ólög höfum við eiginlega samið? Það er ætlast til þess að fólk á bótum taki bara þá vinnu sem býðst alveg óháð launum, óháð vinnuaðstöðu, staðsetningu og alveg óháð menntun og áhuga umsækjenda. Hvaða skilaboð eru þetta? Hvaða hugmyndafræði liggur þarna að baki og hvaða markmiðum á þetta að þjóna? Ætlum við sem samfélag í alvöru talað að krefjast þess að fólk rífi sig og fjölskyldur sínar upp með rótum og neyða það til að taka starf sem það hefur kannski engan áhuga á, jafnvel á slæmum kjörin, bara vegna þess að eitthvert starf losnaði einhvers staðar? Ætlum við í alvörunni að kippa fótunum undan fólki því að við viljum að það sé að vinna til þess eins að vinna? Þrýstingurinn og kröfurnar sem þessar skilyrðingar skapa eru mikið áhyggjuefni og ættu að vera mikið áhyggjuefni fyrir okkur og ættu að skoðast í samhengi við aukinn geðheilbrigðisvanda og kulnun.

Nú er verið að tala um að virkni ungs fólks eða skortur á virkni sé vandamál, að ungt fólk sé ekki nægilega virkt. Ég held að það sé kjaftæði, afsakið orðbragðið, forseti. Ungt fólk er alveg nægilega virkt. Við berum bara allt of litla virðingu fyrir því hvernig ungt fólk er virkt, hvernig það kýs að verja tíma sínum. Stóri vandinn er tilgangsleysið sem vaxandi hópur fólks finnur fyrir og kannski ekki skrýtið þegar horft er til þeirra úreltu hugmynda um hlutverk manneskjunnar í samfélaginu, að manneskjan sé bara tannhjól sem ætlað er að drífa öll kerfin okkar áfram, hugmynda sem ríkið með sínum fáránlegum hvötum og refsingum viðheldur og magnar upp.

Atvinnulausir eru svo ekki þeir einu sem eru settar svona þröngar skorður. Þetta á við um alla bótaþega. Ég gæti haldið hér langa ræðu um þær fáránlegu skerðingar og skilyrðingar sem finnast víðs vegar í bótakerfunum okkar, sem við erum víst heimsmeistarar í, skerðingum og skattlagningu á fátækasta fólkið í samfélaginu. Þessar skerðingar eru ekki bara mannfjandsamlegar heldur eru þær engan veginn til þess fallnar að ná markmiðunum, ef markmiðið er að tryggja einhvers konar fyrir fram skilgreinda hugmynd ríkisins og samfélagsins um virkni. Skerðingar og skilyrðingar hafa nefnilega öfug áhrif. Þær draga úr virkni. Fólk í skerðingarfangelsi stjórnvalda getur hvorki hreyft legg né lið án þess að ríkið hirði af því peninga, fyrir utan það hvað þetta markmið, að auka og tryggja virkni, er mikið drasl.

Með því frumvarpi sem verið er að ræða hérna og öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem voru viðbrögð við Covid, er verið að dæla fjármagni í alls konar vinnumarkaðsaðgerðir sem styðja fyrst og fremst við það að fyrirtæki geti ráðið inn starfsfólk með stuðningi hins opinbera. Þarna er því verið að auka enn meira þau völd sem fyrirtækin hafa gagnvart atvinnulausu fólki: Komdu til mín, annars refsar ríkið þér. Þetta eru skilaboðin. Þetta er það sem við erum að leggja upp með. Þarna kristallast sú skaðlega, undirliggjandi hugmyndafræði, að við manneskjurnar séum lítið annað en þrælar vinnumarkaðarins. Það sé bara tilgangur okkar og það sem allt kerfið snýst um, að koma fólki út á vinnumarkaðinn eins hratt og mögulegt er. Ættum við ekki frekar að vera að styðja við einstaklinginn beint? Við vitum að fólkið í landinu er algerlega fært um að skapa eigin verðmæti ef því og okkur öllum er gefið smá svigrúm til þess. Væri ekki skynsamlegra að slaka á kröfunum sem gerðar eru til atvinnulausra og auka svigrúmið?

Ég hefði viljað sjá stjórnvöld í upphafi faraldursins gefa atvinnulausum tímabil þar sem engar kröfur voru gerðar. Hvers konar verðmætasköpun hefði átt sér stað ef stjórnvöld hefðu treyst fólki fyrir þess konar frelsi, treyst fólki fyrir því að geta skapað verðmæti í samfélaginu út frá eigin þörfum, út frá eigin ástríðu? Hugsið ykkur sóunina sem felst í því að þvinga fólk í störf sem henta því engan veginn. Um leið missir fólk af tækifæri sem hefði kannski hentað því miklu betur, bara vegna þess að reglurnar gera ekki ráð fyrir því að fólk fái nokkru ráðið um það hvernig það hagar atvinnuleit sinni.

Það frumvarp sem við ræðum núna er einmitt framlenging af þeirri stefnu stjórnvalda, af þeirri hugmyndafræði að veðja á atvinnurekandann og fjármagnseigandann frekar en fólkið. Það er ástæðan fyrir því að ég get engan veginn stutt þessar aðgerðir, þótt það séu aðgerðir í frumvarpinu sem eru góðar. Verið er að gefa atvinnulausum aukið fé, 100.000 kr. fyrir þá sem hafa verið lengi atvinnulausir, sem er frábært. Ég hefði verið til í að sjá fleiri slíkar aðgerðir þar sem við værum bara að styrkja fólk beint og valdefla fólkið í landinu, en ekki endalaust að valdefla fyrirtækin. Við verðum að jafna þetta valdaójafnvægi.