151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Líkt og fram kom hjá hv. framsögumanni nefndarinnar þá stend ég að þessu nefndaráliti, með fyrirvara þó sem ég hyggst nú gera grein fyrir. Það er kannski rétt að byrja á því að segja að sá fyrirvari snýr ekki að því sem er í frumvarpinu. Ég styð efni þessa frumvarps heils hugar og tel vera framfaraskref að vera með skýrari reglur varðandi það hvaða rétt þingmenn hafa til endurgreiðslu ferðakostnaðar í aðdraganda kosninga, bara til að jafna þann aðstöðumun sem eðlilega og nánast óhjákvæmilega er á milli þeirra sem fyrir eru og þeirra sem sækja eftir því að komast hingað inn. Það er alveg eðlilegt að við hemjum aðeins þá möguleika sem við höfum í gegnum starfið til að styrkja stöðu okkar á kostnað þeirra sem eru að reyna að ná kjöri.

Fyrirvari minn snýr hins vegar að atriði sem ég nefndi í 1. umr. málsins við hv. flutningsmann þess, Steingrím J. Sigfússon, og varðar 9. gr. laga um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Það er grein sem snýst um endurgreiðslu starfskostnaðar. Ég ætla örstutt að fara yfir hvernig þau mál standa til að útskýra hvað það er sem ég hefði frekar vilja sjá gerast og hvað það er sem mér þætti gott að sjá gerast í framhaldinu.

Á 149. löggjafarþingi lagði sá sem hér stendur fram frumvarp um breytingu á lögum um þingfararkaup þar sem lagt var til að fella brott 2. málslið 2. mgr. 9. gr. laganna. Sú málsgrein snýst um að endurgreiða skuli alþingismönnum starfskostnað samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setur. Síðan kemur sá málsliður sem ég vil og trúi að muni á endanum falla brott úr lögunum, að heimilt sé að greiða starfskostnað samkvæmt þessari málsgrein sem fasta fjárhæð í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum. Það sem mér þætti eðlilegra ráðslag varðandi þetta er að þingmenn hefðu möguleika á að fá starfskostnað endurgreiddan, kostnað sem sannarlega fellur til vegna starfa þeirra en aðeins gegn framvísun reikninga, og þeir reikningar myndu síðan, eins og gengur og gerist í því gagnsæisamfélagi sem við erum komin inn í, birtast á vef Alþingis, eins og raunin er orðin varðandi aðrar kostnaðargreiðslur þingmanna. Þetta myndi sýna ákveðna ráðdeild. Þetta myndi sýna ákveðna ábyrgð gagnvart því að við þiggjum hér opinbert fjármagn og höfum ákveðið frelsi til að ráðstafa þeim í þennan starfskostnað. En raunin er sú að þessi undanþáguheimild, sú heimild sem er í málsgreininni varðandi það að heimilt sé að greiða starfskostnað sem fasta fjárhæð í stað endurgreiðslu, er sú sem almennt er notuð.

Þegar frumvarp mitt var til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í maí 2019 skilaði forsætisnefnd inn umsögn um það og sagðist hafa rætt á fundum sínum að tímabært væri að hefja undirbúning að endurskoðun laga um þingfararkaup þar sem gera mætti ráð fyrir því að þetta ákvæði laganna kæmi til skoðunar. En eins og fram kom í 1. umr. við það mál sem við ræðum hér í dag þá náðist ekki samstaða í forsætisnefnd um að taka á því. Þar með erum við aðeins að taka á ferðakostnaði í aðdraganda kosninga. Mér skilst hins vegar að þetta standi til bóta og bind vonir við að forsætisnefnd setji innan skamms í gang heildarendurskoðun á bæði lögunum og reglum forsætisnefndar varðandi starfskostnað og vænti þess að við sjáum eitthvað í þá veruna áður en til kosninga kemur nú í haust. Þessi starfskostnaður er nefnilega til töluvert meiri vandræða en hann þyrfti að vera vegna þess að það er möguleiki að fá hann sem ígildi launauppbóta. Með því að fella út málsgreinina sem ég hef lagt til að fella út þá væri þetta miklu vandræðaminni heimild.

Rifjum upp hér örstutt þegar kjararáð hækkaði laun þingmanna ansi skarpt eftir kosningar 2016. Í janúar 2017 brást forsætisnefnd við þeirri hækkun með því að lækka þessar starfskostnaðargreiðslur. Greiðslur, sem eiga að standa undir skrifstofukostnaði eða öðru slíku, voru þarna notaðar til að lækka laun þingmanna. Þetta sýnir hvernig búið er að grauta þessu saman, hvernig farið er að líta á starfskostnaðinn sem launauppbót. Þannig mætti í rauninni segja að stofnað hafi verið til hans árið 1995 þegar lög um þingfararkaup voru upphaflega sett. Á þeim tíma voru þetta nú enn hærri greiðslur. Í dag er starfskostnaðurinn 40.000 kr. á mánuði og hefur haldist þannig óbreyttur frá því að hann var lækkaður í janúar 2017. Ég myndi leggja til að hann héldist óbreyttur þangað til nýju fyrirkomulagi verður komið á. En árið 1995 var starfskostnaðurinn ígildi þriðjungshækkunar á þingfararkaupi. Þá var þetta ákvæði gagnrýnt af hluta þingmanna sem dæmi um sjálftöku þingheims, sem einhverja hjáleið þingmanna fram hjá því kerfi sem sett hafði verið upp til að ákvarða laun þingmanna. Og það prinsipp heldur í sjálfu sér þó að upphæðin sé í dag fjarri því að vera sama hlutfall af launum þingmanna og hún var í árdaga laganna.

Eins og fram kom hjá hv. framsögumanni þá byggir það frumvarp sem við erum að afgreiða hér í dag á samkomulagi flestra flokka sem eiga sæti í forsætisnefnd og við það er í sjálfu sér ekkert að athuga. Í trausti þess að sú samstaða haldi hér í þingsal þá finnst mér sjálfsagt að styðja frumvarpið eins og það stendur en legg þó ríka áherslu á að forsætisnefnd komi fyrir kosningar starfskostnaðargreiðslum í skýran og góðan farveg og strax að loknum kosningum verði vonandi bætt úr því ástandi sem tæpt var á í frumvarpinu sem ég lagði fram á 149. þingi.