151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[13:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í minni hlutanum styðjum framlengingu nauðsynlegra úrræða sem hér er verið að fjalla um. En í þeirri atkvæðagreiðslu sem nú fer fram er einnig lagt til að við mætum vanda námsmanna á Íslandi og leyfum þeim að njóta þeirra réttinda sem þau hafa jú tekið þátt í að greiða í, þ.e. í Atvinnuleysistryggingasjóð, þannig að þau geti líka fengið þetta skjól sem við veitum öðrum atvinnuleitendum hér á landi, þó til bráðabirgða. Bráðabirgðatillagan sem við leggjum fram lýtur eingöngu að sumrinu núna, sumrinu 2021, í námshléi. Legg ég til að allir þingmenn íhugi hvort þeir treysti sér ekki til þess að styðja við námsmenn og fjölskyldur þeirra á þessum flóknu tímum eins og við aðra.