151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nefndin fjallaði ekki sérstaklega um fjármál í þessu sambandi og tilgangur frumvarpsins er að rýmka lagaheimildir. Ég verð að játa að ég get ekki svarað spurningum hv. þingmanns að öðru leyti en því að við teljum að það sé baráttunni á þessu sviði til framdráttar að gera þær lagalegu breytingar sem felast í frumvarpinu. En hv. þingmaður þyrfti að taka þann þátt sem varðar fjármögnunina upp á öðrum vettvangi eða af öðru tilefni. Það segi ég ekki af því að ég sé að gera lítið úr athugasemdum hans heldur vegna þess að við vorum í þessu starfi að einbeita okkur að ákvæðum hegningarlaganna og hvernig þeim væri beitt. Við teljum að með þeim breytingum sem í frumvarpinu felast færum við stjórnvöldum sterkari vopn í hendurnar til að vinna gegn brotum af þessu tagi. Varðandi aðra þætti yrði ég að svara hv. þingmanni með meiri fyrirvara.