151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hv. þingmaður verður eiginlega að una við sama svar og áður, ég get ekki svarað honum með þeim skýra hætti sem hann biður um. Í umræðum nefndarinnar og í athugasemdum umsagnaraðila var ekki vikið sérstaklega að þeim þáttum sem hann fjallar um. Hins vegar kom fram af hálfu mjög margra sem starfa á þessu sviði að vegna þess að lagaheimildin og refsiheimildin hafi ekki verið nægilega skýr þá hafi ekki verið hægt að beita tækjum réttarvörslukerfisins nægilega vel til að vinna á þeim vanda. Úr því er auðvitað verið að bæta með þessu frumvarpi.

Varðandi spurninguna sem hv. þingmaður kom með um reynsluna á sviði vinnumansals og mat á því hvort þetta dragi úr þörf fyrir fjármuni á því sviði myndi ég segja að við þyrftum að leggjast í sérstaka skoðun á því. Sú skoðun fór ekki fram af hálfu nefndarinnar og var ekki um hana getið í þeim gestakomum sem fylgdu málinu. Við teljum hins vegar að breytingin sem slík gagnist. Hvort hún sparar peninga þori ég ekki að segja. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé en hins vegar frá sjónarhóli réttarvörslu og refsivörslukerfisins, lögreglu, saksóknara og annarra sem fást við þessi mál, þá telja þeir sig fá með þessum hætti betri lagaheimild til að bregðast við brotum á þessu sviði. En hvaða áhrif það hefur treysti ég mér ekki til að segja án undanfarinnar umfjöllunar í nefndinni.