151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna, eins og flestir, því að verið sé að reyna að skýra þá löggjöf sem gildir í hegningarlögum og ég tala nú ekki um þegar við erum að ræða um svo alvarleg brot eins og mansalsmál. Í frumvarpinu er töluvert talað um skýringar á mansali og farið yfir þá baráttu sem á sér stað hjá Evrópuráðinu og víðar. Þá er sérstaklega fjallað um mat ríkislögreglustjóra á skipulagðri brotastarfsemi tengdri mansali. Ég sakna þess svolítið að sjá ekki í nefndaráliti meiri hlutans eða nefndarinnar aðeins komið inn á mikilvægi þess að lögreglan og þeir sem eru að reyna að berjast gegn mansali, hvort sem það er vinnumansal eða eitthvað annað, fái aukin tækifæri og meiri stuðning til að sinna málum sínum. Það er ljóst þegar maður skoðar þær skýrslur sem ríkislögreglustjóri hefur lagt fram undanfarin ár, hvort sem það er skýrslan frá 2009 eða 2015, að mansal fer vaxandi, ég ætla leyfa mér að orða það þannig. Það er alla vega aukið vandamál, virðist vera, og nátengt skipulagðri glæpastarfsemi.

Þó svo að hér sé verið að skýra og bæta rétt slíkra brotaþola þá sakna ég þess að nefndin hafi ekki gert meira úr því að benda á mikilvægi þess að lögreglu sé gert fært að takast á við þann mikla vanda sem augljóslega fylgir skipulagðri glæpastarfsemi. Mig langar að spyrja þingmann og framsögumann þessa ágæta máls hvort það hafi komið upp í nefndinni og verið rætt sérstaklega, hvort það væri ekki rétt að finna leiðir til að bæta aðbúnað lögreglu.