151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þær hugleiðingar sem hv. þingmaður er með í þessu sambandi eru alveg réttmætar og áhugaverðar og hafa verið teknar til umræðu í nefndinni í tengslum við stöðu lögreglunnar og stöðu baráttunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við vorum hins vegar með tilteknar breytingar á almennum hegningarlögum í þessu máli og nefndin tekur afstöðu til þeirra í þeirri umfjöllun sem felst í nefndaráliti. En jafnvel þó að við séum ekki með almennar hugleiðingar um stöðu alls konar tengdra mála í nefndarálitinu felur það ekki í sér að nefndin hafi ekki áhyggjur af þeim þáttum, alls ekki. Við erum hins vegar að fást við afmarkaðar lagabreytingar, afmarkaðar breytingar á almennum hegningarlögum og tökum afstöðu til þeirra. Nefndin gerir það með því að taka undir þetta frumvarp ráðherra. Þær tillögur sem felast í frumvarpinu fengu stuðning allra þeirra sem vinna að þessum málum og það kemur líka fram í nefndarálitinu að því var almennt vel tekið. Við vorum að velta þessu fyrir okkur út frá því sem í frumvarpinu sjálfu stendur. Við hefðum auðvitað getað skrifað langa ritgerð um allt mögulegt sem okkur finnst að geti tengst þessu máli en við vorum bara að taka afstöðu til tiltekinna tillagna í tilteknu frumvarpi. Þó að við minnumst ekki á fjármögnun lögreglu eða möguleika lögreglu til að berjast við skipulagða glæpastarfsemi í almennum skilningi þá felur það ekki með neinum hætti í sér að ekki sé þörf á að gera betur á því sviði.