151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þetta mál er vissulega til bóta og löngu tímabært að tekið sé á þeim alvarlega glæp sem mansal er. Hins vegar eru þessar aðgerðir mjög takmarkaðar og ef þeim er ekki framfylgt sem hluta af einhverri heildaráætlun í því að takast á við þessa alvarlegu brotastarfsemi þá er ekkert víst að þetta muni breyta miklu.

Í nefndaráliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að baráttan gegn mansali er viðvarandi verkefni hverrar þjóðar var stefnuskjalinu ekki afmarkaður tiltekinn tímarammi, heldur gildir þar til annað verður lagt fram. Þannig eru aðgerðir almennt ekki tímasettar en þó séu tilteknar aðgerðir tímasettar. Meiri hlutinn leggur áherslu á það sem kemur fram í stefnuskjalinu að ætlast sé til að unnið verði að öllum aðgerðunum á skilvirkan hátt og þær sæti reglubundinni endurskoðun í umbótaskyni.“

Gott og vel, þetta er ágætisathugasemd en hún einmitt dregur það fram hversu takmörkuð aðgerð þetta í rauninni er. Maður veltir því fyrir sér eftir nánast heilt kjörtímabil hvers vegna ekki er brugðist við á meira afgerandi hátt með aðferðum sem duga, því að strax við upphaf þessa kjörtímabils, í október 2017, birtist skýrsla frá greiningardeild ríkislögreglustjóra þar sem ítarlega er farið yfir vaxandi umfang skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi og heill kafli helgaður mansali. Kaflinn ber yfirskriftina „Smygl á fólki/Mansal“. Greiningardeildin lét sér ekki nægja að skýra umfang vandans og þá hættu sem blasir við og blasti við þegar við upphaf kjörtímabilsins, að þetta væri vandi sem færi vaxandi, heldur lagði lögreglan líka áherslu á að hún þyrfti að fá ný úrræði, fjármagn auðvitað, mannskap, þekkingu og tækni til að takast á við þennan vanda.

Til að setja þetta aðeins í samhengi við þær aðvaranir sem birtust í skýrslunni og hvers vegna þetta mál leysir ekki vandann og er varla til þess fallið að hafa mjög veruleg áhrif á umfang hans ætla ég að vitna aðeins í skýrsluna, í upphaf kaflans um smygl á fólki og mansal. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum erlendra lögregluliða kaupa flestir flóttamenn sem til Evrópu koma sér aðstoð smyglara annaðhvort á hluta ferðar eða ferðina alla. Samkvæmt skýrslu Evrópulögreglunnar frá árinu 2015 um viðskiptamódel þeirra sem stunda mansal og smygl á fólki var hagnaður slíkra viðskipta á heimsvísu árið 2015 metinn á um 39,4 milljarða evra (um 488 milljarðar íkr.).

Í skýrslu Evrópulögreglunnar frá árinu 2017 um skipulagða glæpastarfsemi kemur fram það mat að vinnumansal fari vaxandi og skipulögð glæpasamtök muni hagnýta þann mikla fjölda fólks sem er í viðkvæmri stöðu innan álfunnar. Samkvæmt upplýsingum Evrópulögreglunnar voru allt að 30 þúsund einstaklingar sem tengdust smygli á fólki árið 2015. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því mati hafa aðstæður í Evrópu breyst til hins verra meðal annars vegna hins mikla fjölda flóttamanna sem Evrópa hefur tekið á móti og er nú svo komið að mati Evrópulögreglunnar að um 65% þeirra skipulögðu glæpahópa sem leggja stund á fíkniefnaviðskipti eru samhliða virkir á öðrum sviðum glæpa svo sem í viðskiptum með falsaða vöru, mansali og smygli á flóttafólki.“

Við höfum ekki farið varhluta af þessari þróun á Íslandi. Árið 2019 birti greiningardeildin aðra skýrslu og þá hafði þessi þróun haldið áfram að færast í verra horf, vegna þess að það þarf að greina eðli vandans til að geta tekið á honum af skynsemi.

Svo segir hér áfram í skýrslunni:

„Grunur leikur á að erlendir smyglhringir hafi Ísland sem áfangastað. Þeir sem stunda smygl á fólki eru fljótir að laga starfsemi sína að aðstæðum hverju sinni. Öryggi flóttamanna er oft á tíðum fórnað fyrir aukinn hagnað og til að minnka hættuna á uppljóstrun.

Í hluta tilfella sem upp hafa komið í Evrópu er vitað til þess að flóttafólk hafi verið þvingað til afbrota eða í „svarta atvinnustarfsemi“ til þess að borga skuld sína við smyglarana. Þetta rímar við upplýsingar stofnana Sameinuðu þjóðanna sem segja í skýrslu frá september 2017 að ungt fólk sé krafið um 800–4.000 evrur (100.000–500.000 íkr.) fyrir flutning yfir Miðjarðarhaf til Evrópu. Fólkið skuldi því iðulega smyglurum þegar það kemst á áfangastað. Þær skuldir innheimti smyglarar af fullri hörku.

Lögregla telur að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal og horfir einkum til vinnumansals innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu. Fáar kærur berast í þessum málaflokki og er það í samræmi við eðli brotanna en hefur lítið forspárgildi fyrir umfang starfseminnar. Reynsla erlendis frá sýnir að fátítt er að fórnarlömb leiti til lögreglu. Byggir mat lögreglu því að mestu á upplýsingum og ábendingum en ekki kærum.“

Í þessu liggur m.a. vandinn, herra forseti, og vekur upp spurningar um að hversu miklu gagni þetta annars ágæta mál kemur ef ekki er litið á heildarmyndina og ráðist í heildaraðgerðir. Það vekur auðvitað sérstaka undrun að íslensk stjórnvöld skuli nú ætla að ráðast í breytingar á hælisleitendakerfinu sem eru til þess fallnar að gera glæpahópum auðveldara fyrir að misnota það, á sama tíma og önnur Norðurlönd, ekki hvað síst dönsk stjórnvöld undir forystu danskra jafnaðarmanna, eru að fara í þveröfuga átt, sérstaklega með þeim rökum að Danmörk vilji ekki vera áfangastaður fyrir smygl á fólki og því skuli öllum beint í hina öruggu lögformlegu leið, þ.e. í gegnum kvótaflóttamannakerfið. Á sama tíma fara íslensk stjórnvöld í þveröfuga átt. Með því að tryggja öllum sömu þjónustu og fjárframlög og kvótaflóttamönnum er í raun verið að hvetja til þess að menn fari í hættuför á vegum glæpagengja sem verða svo að sjálfsögðu, eins og fram kom hér, mjög meðvituð um hvaða reglur eru í gildi og vísir til þess að innheimta af fólkinu þær greiðslur sem veittar eru fyrir í mörgum tilvikum, en eins og sagði hér að framan þá kemur meiri hluti þeirra sem koma sem hælisleitendur til Evrópu á vegum þessara smyglara.

Í skýrslunni segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Ólöglegir fólksflutningar og smygl á fólki eru liður í umsvifum skipulagðra glæpasamtaka. Mafíur sem starfa yfir landamæri og hafa komið sér fyrir í mörgum ríkjum Evrópu eru umsvifamiklar á þessu sviði. Lögregla“ — og hér er átt við íslenska lögreglu — „hefur vitneskju um að erlendir ríkisborgarar hafi verið fluttir til landsins með skipulögðum hætti. Sem dæmi má nefna að árið 2016“ — þ.e. árið áður en skýrslan birtist — „komu fjórir laumufarþegar með Norrænu og sóttu um alþjóðlega vernd. Þeir kváðust hafa greitt ónefndum aðilum í Danmörku 2.000 evrur fyrir að smygla þeim um borð í ferjuna í Hirtshals. Umfang ólöglegra fólksflutninga og smygls á fólki telst þó óþekkt. Aukin frumkvæðislöggæsla er til þess fallin að bregða ljósi á þann fjölda einstaklinga sem smyglað er til landsins ár hvert.“

Lögreglan hefur ekki fengið tækifæri til að ráðast í þessa frumkvæðislöggæslu nú fjórum árum seinna og því er umfangið enn óþekkt.

Næst segir:

„Þekkt er á Norðurlöndum og víðar í Evrópu að glæpasamtök nýti sér lögleg/opinber kerfi fyrir starfsemi sína. Þetta getur átt við um bótakerfi, vinnumiðlanir og móttöku flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.“

Það er reyndar vikið að því á nokkrum stöðum í skýrslunni með hvaða hætti þessi kerfi eru misnotuð og því undarlegt að hér skuli birtast tiltölulega lítilfjörlegt mál um þennan stóra vanda á sama tíma og ríkisstjórnin leggur fram mál sem er til þess fallið að auðvelda þessa brotastarfsemi. Nefnd eru dæmi um þetta sem m.a. varða Ísland og einnig tekið fram að oft og tíðum séu hér íslenskir tengiliðir þessara erlendu glæpahópa. Orðið hefur vart við það, reyndar á þeim árum sem liðin eru frá birtingu skýrslunnar, að þessir íslensku tengiliðir geti verið mjög umfangsmiklir í að skipuleggja og selja ferðir til Íslands á vegum tengiliða sinna erlendis, erlendu glæpagengjanna.

Svo segir:

„Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum gefa afskipti lögreglu til kynna að í einhverjum tilvikum hafi hópar sem sækja um alþjóðlega vernd samræmt frásagnir sínar og viðbrögð gagnvart yfirvöldum. Ljóst er að þessir einstaklingar hafa fengið upplýsingar eða þjálfun í því hvernig bregðast eigi við þegar komið er til Íslands. Dæmi eru um að viðkomandi framvísi einvörðungu ljósmynd af vegabréfi eða alls engum skilríkjum og leyni þar með hugsanlega persónuupplýsingum og réttu vegabréfi. Þannig halda viðkomandi ferðafrelsi og geta farið af landi brott þegar þeir kjósa á meðan umsókn þeirra um alþjóðlega vernd er til meðferðar. Slík mál um samræmdar frásagnir í því skyni að svindla á móttökukerfinu hafa einnig komið upp á Norðurlöndum svo sem í Danmörku.

Tölur Útlendingastofnunar um niðurstöður allra afgreiddra mála gefa til kynna að algengt sé að lagðar séu fram tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd.“

Í þessari skýrslu og í skýrslunni frá 2019 og víðar hafa birst upplýsingar frá lögreglu um hvernig þessi kerfi eru misnotuð og í því sýna menn oft og tíðum mikla hugkvæmni en fyrst og fremst fylgjast þeir með þróun kerfisins á hverjum stað og aðlaga sig að því, leika á það, á meðan ekki er til staðar löggæsla til að bregðast við af nægilegu afli.

„Álag á landamærum helst m.a. í hendur við þá stefnu sem stjórnvöld móta […]“ — ég ætla að endurtaka þessa setningu, herra forseti, því að hún er ákveðið lykilatriði í þessu — „Álag á landamærum helst m.a. í hendur við þá stefnu sem stjórnvöld móta og fylgja hverju sinni.“

Þetta ættu að heita augljós sannindi en menn hafa hér í umræðu um annað mál þrætt fyrir að sú sé raunin. Þó er þetta eitt af grundvallaratriðunum í því að takast á við þessi mál af skynsemi, að menn geri sér grein fyrir því að ákvarðanir stjórnvalda á hverjum stað og framfylgni þeirra hefur áhrif á ákvarðanatöku, m.a. glæpagengjanna sem sérhæfa sig í smygli á fólki. Á því byggist breytt stefna á hinum Norðurlöndunum og skilaboðin sem þau lönd hafa sent frá sér hafa heldur dregið úr ásókninni þangað á meðan skilaboðin sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér hafa stóraukið ásóknina hingað að því marki að hún er hlutfallslega sexfalt meiri en í Noregi og Danmörku.

„Þeir þættir sem hvetja farandfólk til að halda til Evrópu kallast í þessari skýrslu „aðdráttarafl“ (e. Pull factor). Meðal slíkra þátta eru atvinnutækifæri, frelsi, skipulag velferðarmála og almennar væntingar um betri möguleika í nýjum heimkynnum auk þess sem vel er þekkt að reynsla og velgengni þeirra sem á undan hafa farið skiptir miklu.

Framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda hefur á undanliðnum misserum verið fallin til að auka „aðdráttarafl“ (e. Pull factor) Íslands sem áfangastaðar fyrir farandfólk frá Evrópu í leit að betri lífskjörum.“

Framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda hefur á undanförnum misserum verið fallin til að auka aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar. Þegar bent var á þetta í umræðum í þinginu gáfu ýmsir lítið fyrir það. En auðvitað er það staðreynd, eins og birtist m.a. í þessari skýrslu, að stefna íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum hefur aukið aðdráttaraflið. Erlend glæpagengi hafa í auknum mæli selt Ísland sem áfangastað, m.a. með því að flytja fólk hingað hluta leiðarinnar eða alla, selja því væntingar en setja það svo í nauðungarvinnu til að gera upp skuldir.

Það er reyndar rétt að taka fram, herra forseti, eins og segir í skýrslunni:

„Hins vegar voru stigin skref til þess nálgast lagaumhverfið sem ríkir á hinum Norðurlöndunum með reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017 frá 29. maí 2017 og reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga 775/2017.“

Þetta eru reglugerðir sem þáverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Sigríður Á. Andersen setti og höfðu umtalsverð áhrif. Þarna komu aðeins önnur skilaboð frá Íslandi og það hafði strax áhrif, sérstaklega á smygl á fólki frá tveimur löndum. En síðan þá hefur orðið algjör viðsnúningur og ríkisstjórnin, eins og ég nefndi, færir sig nú alveg í hina áttina og frá Norðurlöndunum hvað þetta varðar.

„Frá gildistöku þessara breytinga hefur orðið veruleg breyting á fjölda þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd […]“ — segir í skýrslunni, eins og ég var að rekja og þetta hefur haft áhrif á aðdráttaraflið, en nú er sem sagt verið að auka aðdráttaraflið á ný.

„Hælisleitendum frá átaka- og spennusvæðum fjölgaði einnig verulega á Íslandi árið 2016. Líklegt er að sú þróun haldi áfram en þó ber að hafa í huga þá miklu fækkun flóttamanna sem til Evrópu leituðu árið 2016. Á móti kunna að koma hertar reglur um hælisleitendur í Evrópu og aukin áhersla á brottflutning farandfólks sem gætu leitt til frekara álags á landamærum Íslands. Er það dæmi um ytri þrýsting (e. Push factor).“

Þetta höfum við einnig rætt töluvert, þ.e. þann ytri þrýsting sem felst í því að önnur Norðurlönd séu að breyta sínu regluverki á sama tíma og Ísland fer í þveröfuga átt.

Svo heldur þetta áfram, herra forseti. Ég sé að ég hef ekki tíma til að rekja alla þessa mikilvægustu punkta sem ég hefði viljað vísa í úr skýrslunni en ég ætla að taka hérna smáklausu í viðbót. Þar segir:

„Dæmi eru um að þeir sem sótt hafa um alþjóðlega vernd frá þessum ríkjum haldi strax aftur til Íslands eftir að hafa verið synjað um vernd og hlotið lögreglufylgd úr landi.“

Þannig að þó að mönnum hafa verið synjað um vernd og fengið lögreglufylgd úr landi, þar sem iðulega þrír lögreglumenn þurfa að fylgja hverjum og einum, eru mörg dæmi um að menn komi strax aftur.

„Verður því ekki annað séð en að í einhverjum tilvikum, hið minnsta, fari fram skipulögð misnotkun á móttökukerfi alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Þess þekkjast dæmi að viðkomandi stundi „svarta atvinnu“ eða brotastarfsemi á meðan umsókn hans er til meðferðar. Eftir höfnun snýr viðkomandi aftur á réttum skilríkjum og án þess að sækja um hæli og tekur aftur upp fyrri iðju. Skipulagðir glæpahópar geta með þessu móti nýtt sér móttökukerfi alþjóðlegrar verndar hér á landi.“

Það eru mörg dæmi um það í þessari skýrslu að vísað sé í mikilvægi þess að móttökukerfi hælisleitenda sé í lagi og hvernig það er misnotað og dregið fram mikilvægi þess að lagfæra það. Þess vegna er algerlega óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli nú kjósa að fara í þveröfuga átt og á sama tíma og hin Norðurlöndin eru að bæta þarna úr. Og á hverjum bitnar þetta fyrst og fremst? Þetta bitnar fyrst og fremst á fólkinu sem þarf á alþjóðlegri vernd að halda, þarf mest á hjálpinni að halda. Ef byggt er upp kerfi sem auðveldar glæpagengjum að misnota það þá bitnar það mest á þeim sem þurfa mest á hjálpinni að halda og eiga skilið að fá hjálp og gerir okkur erfiðara fyrir að aðstoða það fólk. Það er, eins og ég nefndi áðan, kjarninn í rökstuðningi til að mynda danskra jafnaðarmanna fyrir gjörbreyttri stefnu þar í landi þar sem fólki er beint frá hælisleitendakerfinu og í hið örugga lögformlega kvótaflóttamannakerfi, þveröfugt við það sem íslenska ríkisstjórnin er að gera hér.

Svoleiðis að mál eins og þetta er jú þrátt fyrir allt jákvætt en viðbúið að það hafi takmörkuð áhrif ef menn líta ekki á heildarmyndina.