151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Margt gott kom fram í henni, einkum þar sem hann vitnaði til opinberra skýrslna um stöðu mála að þessu leyti. Ég vildi hins vegar þakka honum sérstaklega fyrir það sem fram kom í lok máls hans, þ.e. að þetta mál sem slíkt fjallar um tiltekna breytingu á almennum hegningarlögum til þess að gera aðilum í réttarvörslukerfinu auðveldara að eiga við mansal. Mansal er hluti af skipulagðri glæpastarfsemi og mikilvægt að vinna gegn henni. Það er líka mikilvægt að sýna varfærni og stefnufestu á sviði útlendingamála. Þetta frumvarp gerir ekki annað en að hjálpa til við að berjast við glæpastarfsemi sem tengist þessu. Þess vegna fagna ég því að hv. þingmaður og aðrir í þinginu hafi tekið vel í þetta mál og séu tilbúnir að styðja það til afgreiðslu vegna þess að það, svo langt sem það nær, hjálpar okkur í því starfi sem við viljum vinna að á þessu sviði. Svo getum við þegar við fjöllum um önnur mál hérna í þinginu rætt aðra þætti varðandi útlendingastefnu og raunverulega baráttu við glæpastarfsemi að öðru leyti, en þetta, svo langt sem það nær, hjálpar okkur í þessari baráttu.