151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ekki lítið úr því að þetta er jákvætt mál. Hv. þm. Birgir Ármannsson viðurkennir að þetta sé auðvitað takmarkað mál í viðureigninni við þann alvarlega glæp sem mansal er. En til þess að aðgerðir eins og þær sem birtast í þessu máli beri sem mestan árangur er mikilvægt að setja þær í samhengi við heildarviðfangsefnið og aðrar aðgerðir sem eru þá liður í baráttu með þessu máli en einnig svo fjölmörgu öðru. Þannig búa menn til besta kerfið, auka mest líkurnar á árangri ef þetta helst allt í hendur. Þess vegna finnst mér svolítið sérkennilegt að fram komi svona takmarkað mál, þrátt fyrir að vera jákvætt, vissulega jákvætt, eftir fjögur ár, eftir að skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra hefur legið fyrir í fjögur ár, þar sem heildarsamhengið er útskýrt, m.a. hvernig glæpahópar misnota hælisleitendakerfið. Enn undarlegra finnst mér að á sama tíma og við ræðum þetta mál, þessi takmörkuðu viðbrögð, þá skulum við vera með til umfjöllunar annað mál sem er til þess fallið að gera glæpagengjum auðveldara að misnota hælisleitendakerfið á Íslandi og eins og ég nefndi í ræðu minni, alveg sérstaklega í ljósi þess að önnur Norðurlönd eru að fara í þveröfuga átt og beina hælisleitendum, flóttamönnum, í kvótaflóttamannakerfið, öruggu lögformlegu leiðina.