151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég verði að vera aðeins meira ósammála þessu svari hv. þingmanns en ræðu hans hér á undan af því að mér finnst að í því gæti ákveðins misskilnings. Látum nú vera misskilning varðandi innflytjendafrumvarpið sem er hér á dagskrá síðar í dag og við fáum vonandi fljótt tækifæri til þess að taka til gagngerrar umræðu. Ég held að sá skilningur sem hv. þingmaður leggur í það mál eigi sér ekki stoð í málinu sjálfu. En látum það vera.

Hitt atriðið sem ég vildi gera athugasemdir við, og tek fram að ég viðurkenni að hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér um margt varðandi þann vanda sem við er að etja, er að hv. þingmaður komi hér og haldi því fram að þetta frumvarp, þetta tiltekna frumvarp, um tilteknar breytingar á almennu hegningarlögunum, sé það eina sem gert hefur verið til að bregðast við þeim vanda sem viðurkenndur er og hefur verið um margra ára skeið varðandi skipulagða glæpastarfsemi. Það er ekki sanngjörn lýsing að mínu mati og virðist sem hv. þingmaður hafi misst af þeirri umræðu sem átti sér stað hér fyrir fáeinum vikum þar sem farið var ítarlega yfir margvíslegar aðgerðir, bæði fjárveitingar, sérstakar fjárveitingar, aukafjárveitingar, breytt skipulag lögreglu og fjölmargt annað sem gert hefur verið til að auðvelda lögregluyfirvöldum hér að eiga við skipulagða glæpastarfsemi. Þetta er lítið púsl í heildarmyndinni en mikilvægt púsl, þetta frumvarp, en það þýðir ekki að það hafi ekki heilmargt verið gert á þessu sviði þótt vafalaust getum við staðið okkur betur.