151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að halda því fram að þetta sé það eina sem frá ríkisstjórninni hafi komið en þetta er þó mál sem á að vera liður í því að takast á við gríðarlega alvarlegt vandamál, lagt fram núna við lok kjörtímabils án samhengis við heildarvandann. Ég man vel eftir þeirri umræðu sem hv. þingmaður vísaði í, þar sem hæstv. dómsmálaráðherra svaraði fyrir baráttuna við skipulagða glæpastarfsemi, enda bað ég um þá umræðu og þess vegna var hún haldin. Þar kom fram í máli ráðherra eitt og annað um aukið samráð milli lögregluembætta á Íslandi. Þar var vísað í innfluttar reglur um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og tínt til að íslenska lögreglan hefði fengið fjármagn vegna þátttöku sinnar í aðgerðum sem skiluðu sér í að gert var upptækt töluvert fjármagn hjá erlendum glæpahringjum og hluta af því naut íslenska lögreglan. En það vantar mjög mikið upp á að brugðist hafi verið við þeim ábendingum, því ákalli, sem birst hefur í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra um mannafla, fjármagn, þekkingu, tækni, heimildir o.s.frv. Það vantar að mjög verulegu leyti að ríkisstjórnin hafi sinnt því.

Hvað varðar athugasemd hv. þingmanns um að allt sé á misskilningi byggt þá hefur maður heyrt þetta býsna oft frá meirihlutaflokkunum þegar þeir eru að reyna að koma í gegn einhverjum vafasömum málum en iðulega kemur á daginn að misskilningurinn, hafi hann verið til staðar, liggi þeirra megin. Í þessu tiltekna máli um hælisleitendur hafa hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Brynjar Níelsson til að mynda í raun tekið undir málflutning okkar Miðflokksmanna. (Forseti hringir.) En hvað gera þeir svo? (Forseti hringir.) Þeir mæta í þingsalinn og ýta á græna takkann.