151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:32]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni kærlega fyrir þessar spurningar. Ég held að kvalarar, ef ég má orða það þannig, þess aumingjans fólks sem lendir í því að vera fórnarlömb mansals, af hvaða tagi sem það er, eigi afskaplega auðvelt með að stjórna. Það að hræða fólk með yfirvöldum er auðvitað þekkt og einföld leið til að ná fólki alveg niður á gólfið svo að það þori ekki að hreyfa sig, þori ekki að kæra, þori ekki að gefa sig fram við yfirvöld. Fólkið er hrætt við yfirvöld. Ég held að það sé þáttur í brotum og brotastarfsemi að kvalararnir telji þessu fólki trú um að yfirvöld séu af hinu slæma, enda kemur margt af þessu fólki frá löndum eða svæðum þar sem yfirvöld eru kannski ekki með þeim skástu í heiminum og eru kannski þekkt fyrir að koma illa fram við sitt fólk þannig að það er greypt í huga margs af þessu fólki að yfirvöld séu af hinu slæma. Að breyta þessu áliti fólks er kannski þrautinni þyngra almennt vegna þess að það kemur hingað til lands með þessa hugmynd um að yfirvöld séu af hinu slæma og það eigi ekki að leita til þeirra, þau komi ekki til með að hjálpa heldur gera eitthvað annað. En við vitum auðvitað, hv. þingmaður og ég, að íslenska lögreglan er ekki í þeim hópi.