151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir spurningarnar. Hann er þarna kominn inn á lendur sem væri mjög gaman að taka miklu lengri tíma til að ræða. Mér heyrðist hv. þingmaður kannski líka vera að tala um eitthvað sem heitir refsingar burðardýra. Ég er alveg sammála því, einhvers staðar las ég að við værum að refsa mjög harkalega fyrir afbrot burðardýra, þ.e. þeirra sem eru fengnir til að bera fíkniefni á milli landa. Ég er algerlega sammála þeirri skoðun sem hefur verið reifuð, við erum að refsa alveg svakalega harkalega fyrir það, vitandi kannski að það fólk stjórnar ekki þessum innflutningi sjálft, alls ekki. Ég deili þeirri skoðun, ef rétt er skilið, að hv. þingmaður hafi verið að tala um það að þetta fólk, sem oft er háð sínum kvölurum, er að flytja inn kannski mikið magn af fíkniefnum og fær gífurlega þunga dóma. Ég hef auðvitað ákveðnar áhyggjur af því.

Hv. þingmaður talaði líka um frjálslyndi í vímuefnalöggjöfinni, að Miðflokkurinn væri þar að tala gegn því, berjast gegn því. Já og nei, svarið við því er „bæði og“. Við erum að berjast fyrir frumvarpinu sem liggur í nefnd, vegna þess að þetta frumvarp hér er algerlega ófullburða og vanbúið. Ég held hreinlega að menn séu farnir að sjá það og átta sig á því að svo sé vegna þess að þessu frumvarpi fylgir ekki nokkur skapaður hlutur annar en það að leyfa neysluskammta fíkniefna. Við getum ekki sætt okkur við það ef ekki á að gera neitt annað en það. Þess vegna höfum við kallað það lögleiðingu þessara efna og við erum ekki fylgjandi því. Því verða að fylgja margvíslegar og róttækar og ígrundaðar aðgerðir.