151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég fann nú ekki mikið í henni sem ég get verið ósammála. Ég hlýddi með athygli á umfjöllun hans um undirboð á vinnumarkaði, þ.e. svokölluð félagsleg undirboð, og fór þá að velta fyrir mér því sama og ég spurði annan hv. þingmann um áðan en það er staða fólks sem er kannski á gráu svæði gagnvart löggjöfinni, fólks sem er ekki endilega fórnarlömb mansals í skýrasta skilningi samkvæmt lögunum þar sem hægt væri að beita hegningarlögum eða þess háttar, en er samt í ákveðnu kúgunarsambandi við yfirmenn sína, kúgunarsambandi þar sem þeir geta m.a. beitt reglum ríkisins gegn viðkomandi fyrir hluti eins og að uppfylla ekki skilyrði til dvalarleyfis eða eitthvað því um líkt, fólks sem kemur kannski hingað inn og er með eitthvað óþægilegt eða ólöglegt í sínum málum hvað varðar dvalarleyfi og þess háttar en þarf að vera hér, vill vera hér og óttast ekkert meira en að verða sent úr landi; vill taka á sig ýmsar píningar hér á Íslandi frekar en að vera sent til baka og búa við sömu píningar eða verri í sínu heimalandi, hvort sem það eru bara ómannúðlegri starfsskilyrði eða eitthvað annað sem viðkomandi óttast eða hvað. Punktur minn er þessi: Þegar við búum í samfélagi þar sem fólk þarf að óttast viðbrögð yfirvalda við því hvert það er eða hvað það gerir, við hlutum sem eru ekki alvarlegir — það er t.d. ekki alvarlegur hlutur að vera í einhverju landi þar sem má ekki vera, það er ekki alvarlegt, það er ekki alvarlegt að einhver noti vímuefni sem er ólöglegt eitt og sér, það er ekki alvarlegt brot gegn öðrum, það getur orðið alvarleg vandamál fyrir einstaklinginn og aðra en eitt og sér er það ekki alvarlegt, þegar við setjum hins vegar upp kerfið okkar þannig að fólk er í erfiðri stöðu gagnvart vinnuveitendum, hvað varðar dvalarleyfi, gagnvart yfirvöldum yfir höfuð, (Forseti hringir.) er þá ekki gott ef við erum með ríki sem er almennt skilningsríkt gagnvart því að fólk er misjafnt, að það (Forseti hringir.) fremur kannski ekki endilega alvarleg brot en við leyfum því að vera hérna? (Forseti hringir.) Er ekki mikilvægt, til að þetta fólk treysti yfirvöldum, að við sýnum sem mest frjálslyndi í þeim efnum?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að tími til andsvara er tvær mínútur.)