151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég skil það þannig að spurning hv. þingmanns gangi út á að það sé akkur í því að þeir einstaklingar sem koma hingað, eins og hv. þingmaður orðaði það, með örlítið óhreint mjöl í pokahorninu, án þess að um alvarleg brot sé að ræða, hræðist ekki yfirvöld. Ég held að ég skilji punkt hv. þingmanns klárlega en þingmaðurinn leiðréttir mig ef svo er ekki. Ég held að við ættum að einsetja okkur að þeir sem eru hér, hvort sem það eru einstaklingar sem eru ráðnir til starfa hjá þeim fyrirtækjum sem hér starfa eða einstaklingar og fjölskyldur sem koma hér í gegnum kvótaflóttamannakerfið, sem er auðvitað grannskoðað með miklu meira afgerandi hætti en umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma hingað á eigin vegum — ég er ekki viss um að það sé heillavænlegt skref að forma kerfið þannig að einstaklingar, jafnvel hópar, eins og fjallað er um í skýrslunni sem ég vísaði ítrekað í í ræðu minni, sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu — (Forseti hringir.) ég skil hv. þingmann þannig að þá sé hann að horfa til þess að það verði ekki tilefni brottvísunar (Forseti hringir.) lendi viðkomandi einstaklingur í einhvers lags tengingu við hið opinbera kerfi. (Forseti hringir.) Ég sé alla vega ekki í fljótu bragði leiðina að því (Forseti hringir.) en ef hv. þingmaður stingur upp á einni í næstu ræðu þá skal ég hlusta með athygli.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á tímamörk.)