151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að farsælast sé fyrir samfélagið að allir þeir sem það byggja, þar dvelja, fari að þeim reglum sem settar eru. Ég held að það sé ekki ósanngjarnt að líta svo á, fyrir þá sem koma hingað erlendis frá, í hvaða tilgangi sem það kann að vera, allt frá því að koma hér til lengri tíma dvalar eða til þess að koma sem ferðamenn til skamms tíma, að reglurnar séu eins og þær eru. Ég held að ef við förum í þá vegferð að reglurnar séu meira til viðmiðunar en annað — (HHG: Að reglurnar séu frjálsari.)— Já, já, ég skil en ég held við verðum að horfa til þess að fólk fari eftir reglunum eins og þær eru. En það að reglusetningin verði frjálsari, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kemur inn á, er þá bara samfélagsbreyting og lagabreyting sem þarf að gerast jafnt og þétt. Ég held að við breytum því viðmiði samfélagssáttmálans ekki bara með því að halda ræður, þótt ágætar séu, um aukið frjálslyndi. Við verðum þá að gera það með því að leggja fram breytingartillögur gagnvart hinum ýmsu lagagreinum sem þingmenn Pírata eru duglegir við að gera. Það er oft þannig að ég og aðrir þingmenn Miðflokksins erum ósammála nálgun Pírata á hin ýmsu mál en það er þó ekki algilt og ég held að við verðum að gera það þannig að breyta lagastrúktúrnum ef vilji er til þess raunverulega að auka þetta frelsi. (Forseti hringir.) Ég held að það sé meiri tilhneiging til þess að horfa til þess að allir fari eftir sömu reglum, (Forseti hringir.) sama á hvaða forsendum þeir eru hér á landi.