151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki tölurnar alveg nákvæmlega en ég fletti þeim upp nýlega: Árið 2019 fengu þrjúhundruð og eitthvað manns hæli hérna á Íslandi á meðan það fæddust í kringum 4.500 börn á Íslandi. Þannig að þessi fullyrðing um ofboðslega offjölgun á Íslandi sökum hælisleitenda, vegna þess að við séum að samþykkja svo margar hælisleitendaumsóknir, er ekki á rökum reist. Ég verð að nefna þetta hérna vegna þess að hv. þingmaður fór út í þetta atriði alveg í blálok ræðu sinnar. Það er náttúrlega ekki það sem við vorum að tala um hér. Eflaust munum við fá fleiri tækifæri til að ræða hælisleitendamál og þess háttar. En það er þó vitaskuld tenging við þetta mál og er ástæðan fyrir því að hv. þingmaður fór út í þau. Tengingin sem ég sé er einmitt sú, og hér fer ég út í sömu sálma og ég hef farið út í við aðra hv. þingmenn Miðflokksins, að þegar við búum til kerfi sem fólki ber að óttast þá búum við vitaskuld einnig til kjöraðstæður fyrir kúgun þegar fólk sem er í þeim aðstæðum að það ýmist neyðist til eða slysast til að brjóta einhverjar reglur sem við höfum sett, og það er komið í mjög vonda stöðu gagnvart kúgurum sínum. Þetta held ég að sé tiltölulega algengt, bæði þegar kemur að félagslegum undirboðum og þegar kemur að mansali, þ.e. viðkomandi aðila er hótað með því hann sé að brjóta lög.

Hv. þingmaður Miðflokksins, Bergþór Ólason, nefndi áðan í andsvari sínu við sömu spurningu að auðvitað eiga sömu reglur að gilda fyrir okkur öll. Ég er alveg sammála því. Auðvitað eiga landslög að gilda og ég er alveg sammála því. En það er akkúrat punkturinn. Orðræða Miðflokksins er ofboðslega mikið þannig að staðið er gegn því að búa til kerfi sem er einhvern veginn skilningsríkara gagnvart fólki sem er í þeim aðstæðum að vera kúgað vegna einhvers sem það hefur gert, eins og t.d. það að leita hælis einhvers staðar og kannski að vinna án þess að hafa til þess leyfi, sem er, meðan ég man, staða sem hælisleitendur lenda í, ef það var ekki á hreinu.