151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Það eru auðvitað bara hans orð og hans útlegging að við séum að fjalla hérna um einhverja offjölgun og einhverja fæðingartíðni og eitthvað svoleiðis. Það er náttúrlega ekki málið. Málið er um það að heimurinn, veröldin, er skekinn vegna flóttamannastraums. Það eru tugmilljónir manna á flótta og það viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir eins og aðrir er: Með hvaða hætti eigum við að bregðast við þessu heimsvandamáli? Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til þess að lina þjáningar og rétta fram hjálparhönd gagnvart fólki sem er á flótta og er flóttamenn? Það er spurning. Við höfum, rétt eins og aðrir, ekki nema takmarkaðar aðstæður til þess að beita okkur í málinu. Eitt er t.d. það að við höfum ekki nema takmarkað fé. Það er þess vegna okkar skylda og ábyrgð að marka stefnu sem er þannig að það fé og þær aðstæður sem við höfum yfir að ráða nýtist sem best, gagnist sem flestu fólki og dugi þannig að við getum borið höfuðið hátt í heiminum og sagt: Við lögðum okkar af mörkum. Og við höfum lagt okkar af mörkum. Það viljum við Miðflokksmenn gera. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson getur ekki litið fram hjá því að á Norðurlöndunum er orðin gagnger stefnubreyting í þessu efni. Þau hafa fylgt stefnu í hátt í fjóra áratugi sem þau lýsa núna sem mistökum og hverfa frá. Við viljum ósköp einfaldlega, herra forseti og hv. þingmaður, læra af þeirra reynslu og meta með sjálfstæðum hætti þá stefnubreytingu sem þar er orðin.