151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér afskaplega gott og jákvætt mál sem ég hygg nú ekki að stök sála á Alþingi sé á móti enda afskaplega vel unnið og vandað frumvarp. Hins vegar ætla ég að fjalla aðeins um það hvers vegna ég skil óskaplega vel að fulltrúi okkar í nefndinni, hv. þm. Olga Margrét Cilia, hafi ekki verið með á nefndaráliti. Ástæðuna má kannski helst finna í nefndarálitinu sem kom frá meiri hlutanum. Svo það sé áréttað þá þýðir það að vera ekki á nefndaráliti meiri hlutans ekki andstöðu við mál. Reyndar gætu verið ótal nefndarálit sem öll lýstu yfir stuðningi við málið en nefndarálitið sjálft vekur hins vegar spurningar, verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti. Spurningin er: Hvers vegna mátti ekki ganga aðeins lengra og bregðast við þeim sjónarmiðum sem er að finna í umsögnum við umfjöllun málsins? Ég tek það skýrt fram að ég sat ekki þessa fundi, ég veit ekki hvað fór fram á þeim og hef ekki lesið allar umsagnirnar enn þá en hef punkta og hef lesið eitthvað um þetta og grennslast fyrir um efni nefndarálitsins.

Það vekur athygli mína að í nefndarálitinu er ekki brugðist við tillögum sem að mínu mati hefði mátt skoða betur. Sem dæmi er sagt í nefndarálitinu að bent hafi verið á að mikilvægt sé að möguleg fórnarlömb mansals séu ekki sett í varðhald við komu til landsins. Nefndin bregst ekki við þessari ábendingu en vísar annars vegar í þingsályktun nr. 35 frá 149. þingi og hins vegar frumvarp sem er nú til meðferðar í nefnd og er 718. mál á yfirstandandi löggjafarþingi og bendir síðast en ekki síst á að eftirfylgni þurfi eftir að þetta mál er samþykkt til að fylgjast með stöðu mála og bregðast við þeim lærdómi sem kemur til við reynslu af nýjum lögum.

Vandi minn er sá að ég sé ekki í fljótu bragði, hafandi aðeins flett í téðri þingsályktun og frumvarpi, hvernig nákvæmlega þau eiga að koma til móts við þetta. Ég finn ekkert í þessum gögnum sem fyrirbyggir að möguleg fórnarlömb mansals séu sett í varðhald. Önnur athugasemd sem birtist á sama stað í nefndarálitinu er að bent hafi verið á að samþykki þolenda mansals megi ekki hafa áhrif á refsiábyrgð gerenda. Þar er sama sagan, það er vísað í þessi tvö ágætu skjöl en ég finn ekkert í þeim sem tekur á vandanum. Þarna fæ ég strax þá tilfinningu af nefndarálitinu að það hafi verið meiri áhersla á að klára málið, málstaður sem er ekki vondur, en að taka svolítið myndarlega á þessu atriði strax ef unað væri við.

Mér skilst að málið fari til nefndar milli umræðna. Það er alla vega ályktunin sem ég dró af síðari ræðum sem ég hef hlýtt á í dag. Vona ég þá að þetta verði skoðað aðeins betur. Vel má vera að mér hafi yfirsést eitthvað þarna, ég verð að viðurkenna það, þetta er þó nokkuð af efni sem ég hef ekki lesið spjaldanna á milli. En það vakti athygli mína hvernig var skautað yfir þetta og vísað í einhver skjöl þar sem er síðan hvergi minnst á mansal og þessi atriði, alla vega ekki svo ég hafi fundið við textaleit.

Vinnueftirlitið benti á að í greinargerð frumvarpsins er mansal m.a. skilgreint þannig að það geti falið í sér aðra misnotkun á vinnuafli, þ.e. aðra misnotkun á vinnuafli en þá sem er sérstaklega talin upp, þrælkun og þess háttar. Leggur Vinnueftirlitið til að það verði skýrt í texta frumvarpsins og skilgreint betur og vísar þar meira að segja til sænsku hegningarlaganna þar sem alla vega tvö hugtök eru skilgreind, sem á ensku eru þýdd sem „human exploitation“ og „labour under clearly unreasonable conditions“.

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að snara þessu yfir á íslensku hér og nú en það er alla vega sænska í nefndarálitinu sem fólk getur þá stuðst við ef það vill. En þetta er annað atriði sem ég hefði viljað sjá nefndina glíma svolítið betur við og reyna að finna einhverja lausn á, því að ég tek undir þetta í grundvallaratriðum, ég hygg nú að nefndin myndi gera það líka. Rökstuðningur nefndarinnar er þannig að þegar sé verið að útvíkka ákvæðið, sem er jákvætt, og ég fæ ekki betur séð en að allir séu sammála, en nefndin vísar þar að auki til þess að það sé mikilvægt að refsiábyrgð sé skýr sem vitaskuld er dagsatt. En það er tillaga í umsögn Vinnueftirlitsins um það hvernig megi ná því markmiði og var þar vísað í hin rómuðu sænsku hegningarlög. Þá var einnig í umsögn Útlendingastofnunar bent á að samræma þyrfti hugtakanotkun, sem nefndin var ósammála, ég læt það nú eftir henni.

Virðulegi forseti. Þá hef ég farið yfir þá fyrirvara sem ég hef efnislega um málið. Auðvitað erum við ekki komin á lokastað í þessari umræðu, því má vel vera að við þessu verði brugðist áður en málið er samþykkt á Alþingi. Auðvitað er mögulegt að hægt sé að skýra þessi atriði betur en sá sem hér stendur hefur áttað sig á, hingað til alla vega. Ég verð hins vegar líka, í ljósi þess að við erum að ræða þetta mál og mansal og félagsleg undirboð og þess háttar, að nefna að í greinargerð frumvarpsins, alveg neðst í skýringum við 1. gr. frumvarpsins, er aðeins fjallað um refsiábyrgð þolenda mansalsbrota. Það er áhugaverður kafli.

Ég ætla að byrja á því að rifja upp vægast sagt ógeðfellda sögu sem ég fjallaði um hér í ræðu á þarsíðasta kjörtímabili, 28. janúar 2014. Þá hafði komið fram í fréttum að spænsk kona, 21 árs gömul á þeim tíma, hefði verið dæmd og myndi sæta fangelsisvist á Íslandi fyrir fíkniefnasmygl. Þessi unga kona kom með pakkningu af meintu kókaíni sem fannst í nærbuxum hennar. Því hafði verið troðið inn í leggöngin á henni af tveimur karlmönnum. Annar hélt henni á meðan hinn tróð því inn. Þegar hún kom til landsins gat hún ekki losað sig við hina pakkninguna þannig að hún var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar var ákveðið að flytja hana á kvennadeild Landspítalans þar sem hún var svæfð og fíkniefnin sótt af lækni. Í dómnum sem hún fékk segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Játning ákærðu er í samræmi við önnur gögn málsins og framburður hennar um að hún hafi verið neydd til ferðarinnar er trúverðugur.

Verður ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru en brot hennar er í ákæru rétt fært til refsiákvæða. Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.“

Virðulegi forseti. Þarna var enginn ágreiningur um það að hin ákærða var fórnarlamb mansals og í ógeðfelldari kantinum eins og ég hef hér því miður þurft að lýsa. Það var árið 2013 sem hún kom hingað til landsins og ég hélt þessa ræðu 2014.

Aftur að frumvarpinu og seinni hluta þess. Þar er aðeins farið yfir þetta. Hvað gerist þegar fórnarlamb mansals tekur þátt í refsiverðum verknaði eins og þeim sem ég lýsti hér, sem var fíkniefnasmygl? Refsum við þá fórnarlambi mansalsins? Nú hygg ég að öllum þyki það fráleitt og ég hygg reyndar að lögmönnunum og lögreglunni sem tók þátt í þessu á sínum tíma hafi þótt það fráleitt. Þau eru auðvitað bundin af lagabókstafnum eins og hann er. Skýringarnar sem ég finn í frumvarpinu fyrir því hvers vegna þolendur mansals sæti ekki refsiábyrgð þykir mér nefnilega ekki standast miðað við þessa tímalínu.

Í greinargerð frumvarpsins er bent á breytingalög nr. 149/2009 en í því frumvarpi, greinargerðinni nánar tiltekið, er talað um 26. gr. samnings þar sem kveðið er á um undanþágu frá refsingu. Samkvæmt henni skuli fórnarlömbum ekki refsað fyrir aðild sína að ólöglegri starfsemi enda hafi þau verið þvinguð til hennar.

Síðan segir:

„Hér má líta til 74. gr. almennra hegningarlaga.“

Virðulegi forseti. Þar eru reyndar ákvæði sem ég er ekki alveg viss um að ég skilji hreinlega sjálfur, en þau ákvæði voru komin fyrir þennan tíma og voru í gildi árið 2013.

Árið 2018, 21. febrúar, birtist frétt á Vísi þar sem fjallað var um að burðardýr hafi notið ófullnægjandi verndar sem þolendur mansals. Þar er farið yfir þetta og þar er talað við Öldu Hrönn Jóhannsdóttur í lögreglunni á Suðurnesjum. Þar er fjallað um það að þeim aðilum sem taka á móti burðardýrum hér þyki þetta vandmeðfarið en auðvitað sé það ákæruvaldsins að ákveða hvað sé ákært fyrir og dómstóla að dæma. Eðlilega, það er rétta svarið. Þannig á lögreglan að vinna. Vandinn, segir í fréttinni, er löggjöfin. Ég fæ ekki betur séð en að sami vandi sé til staðar nú þegar í gildandi löggjöf, þar á meðal 74. gr. almennra hegningarlaga, sem í frumvarpinu er talin vega upp á móti þessu, og mér þykir mikilvægt að komið sé til móts við þetta og þetta fengið á hreint. Aftur ætla ég að gefa mér þann fyrirvara að málinu sé ekki lokið á Alþingi og að hugsanlega sé hægt að bæta úr þessu. En þó vil ég líka benda á að það er í sjálfu sér ekki endilega sama málið. Þetta mál má alveg fara óbreytt í gegn án þess að við tökum á þessu. En þetta eru skyld atriði. Þetta frumvarp fjallar einungis um refsiábyrgð gerenda í mansalsmálum en eins og er svo oft þegar við erum að takast á við vandamál í samfélaginu þá fókuserum við rosalega mikið á gerendur en gleymum brotaþolum og gleymum fórnarlömbum. Það er mjög algengt í umræðu um hluti sem eiga að vera refsiverðir eða eru taldir eiga að vera refsiverðir, ekki bara í mansali sem allir eru sammála um að eigi vitaskuld að vera ólöglegt og refsað fyrir heldur líka þegar kemur að fólki í kynlífsiðnaði eða vímuefnamálum eða öðrum vandamálum, raunverulegum sem og meintum, sem fólk vill bregðast við með refsilöggjöf. Þá setjum við oft svo mikla áherslu á gerandann og mögulega réttmætt hatur okkar á gerandanum að við gleymum fórnarlömbum fyrirbæranna sem við erum að reyna að slást við. Ég vona vitaskuld að úr þessu verði bætt.

Mig langaði líka að vekja máls á öðru og hef ég aðeins rýmri tíma en hin einstöku andsvör sem ég hef tekið hingað til. Þetta er í víðara samhengi og á ekki í sjálfu sér við efnisatriði þessa frumvarps heldur er meira um það hvernig ég tel mikilvægt að við búum til samfélag sem er sem frjálsast. Ég veit eins og við vitum öll og þarf ekki að tíunda fyrir öllum sem aðhyllast frelsi í milljónasta skiptið að frelsi eins nær einungis að frelsi annarra. Það er augljóst. Hugtakið felur það í sér og það á ekki að þurfa að útskýra það, hvað þá tönnlast á því eins og er gert, en við eigum þó að reyna að búa í sem frjálsustu samfélagi þar sem við reynum sem minnst að stjórna fólki. Andstyggð okkar á mansali er nefnilega vegna þess að við höfum vonandi andstyggð á því að fólk reyni að stjórna hvert öðru með ólögmætum og óréttmætum hætti. Það er jú það sem mansal snýst um.

Það er nú þannig líka í samfélagi okkar, þrátt fyrir frelsisástina, að við þurfum að stjórna fólki upp að einhverju marki. Við þurfum að neyða það til að borga skatta sem dæmi. Við þurfum að neyða það til að fylgja umferðarlögum. Við þurfum að neyða fólk til að meiða ekki hvert annað, stela ekki hvert frá öðru. Við gerum það með valdi. Það vald er nauðsynlegt. Ég vefengi það ekki í lýðræðissamfélagi. En þegar við reynum að kljást við vandamál eins og kynlífsiðnað eða neikvæðar afleiðingar hans, vímuefnamisnotkun eða neikvæðar afleiðingar hennar, þá hættir okkur til að finna réttlætingu fyrir því að gera samfélag okkar á einhvern hátt ófrjálsara. Tengingin þar við þetta mál og mansal almennt er að í hvert sinn sem við gerum fólk ófrjálsara gagnvart yfirvöldum búum við til kjöraðstæður fyrir kúgunarvald einstaklinga á milli. Því frjálsara sem samfélagið er gagnvart yfirvöldum því erfiðara er að nota yfirvöld sem kúgunartæki gagnvart öðrum. Það á vitaskuld líka við þegar kemur að mansalsmálum og félagslegum undirboðum. Alltaf þegar hægt er að hóta öðrum einstaklingi því að leita til lögreglunnar yfir einhverju sem annars myndi aldrei komast upp þá eru aðstæður til kúgunar. Frelsisást er mögulega lítið annað en andstyggð á kúgun og þess vegna tel ég þetta slæmt. Þess vegna tel ég það vera sjálfstætt jákvætt markmið að hafa samfélagið sem frjálsast. Við þurfum að rökræða á hvaða sviðum og upp að hvaða marki það er sjálfsagt. Það er bara hlutverk okkar og við verðum að gera það og baráttan fyrir frelsi er aldrei búin, henni er aldrei lokið. En við eigum að hallast í frelsisáttina. Við eigum að gera fólki sem er fast í einhvers konar kúgunarsambandi, hvort sem það er við yfirmann eða þrælapískara eða annan einstakling, maka, hvaðeina, sem auðveldast að losna úr kúgunarsambandinu. Því meira sem yfirvöld hafa fram að bjóða slíku fólki og því minna sem yfirvöld hafa að hóta slíku fólki, því betra. Þetta er nefnilega allt samtengt.

Þótt fólk hafi alla tíð, frá því sennilega áður en við urðum dýrategundin sem við erum, reynt að kúga hvert annað og neyða til verka sem það vill ekki vinna og getur jafnvel ekki unnið, þá erum við því skyni gædd að við getum búið til reglur fyrir samfélagið okkar. Þær geta verið góðar og þær geta verið vondar. Við setjum stundum vond lög sem stuðla að kúgun, lög sem draga úr frelsi fólks, frelsi til athafna, ekki bara gagnvart ríkinu heldur líka gagnvart hvert öðru og það er slæmt vegna þess að af sömu ástæðu, á sama hátt og við höfum andstyggð á mansali og kúgun, ber okkur að elska frelsið.