151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er eitt atriði sem ég vildi gjarnan átta mig aðeins betur á, afstöðu hv. þingmanns. Í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu er fjallað um refsiábyrgð þolenda mansalsbrota og þar er vísað til Evrópuráðssamnings um aðgerðir gegn mansali. Í 26. gr. þess samnings er kveðið á um undanþágu frá refsingu þannig að samkvæmt henni skal fórnarlömbum ekki refsað fyrir aðild sína að ólöglegri starfsemi, enda höfðu þau verið þvinguð til hennar.

Þarna er sömuleiðis vitnað til 146. gr. laga um meðferð sakamála sem heimilar ákæruvaldinu að falla frá saksókn ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því að fallið sé frá saksókn, enda verði að telja að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar, eins og þar stendur, sem sagt greinargerðinni lýkur á þessum orðum. Þannig er að finna ákvæði bæði í sakamálalögum og almennum hegningarlögum er kveða á um aðstæður þolenda í þessari stöðu og vegna ummæla hv. þingmanns vil ég spyrja hann hvort hann telji að ekki sé nóg að gert í þessu efni, að taka með réttmætum hætti á refsiábyrgð þolenda mansalsbrota.