151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[18:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér sýnist ekki nóg að gert miðað við þau gögn sem ég hef skoðað hingað til. En það er rétt, niðurlag greinargerðarinnar huggar mann svolítið ef maður hefur áhyggjur af þessu. Það lítur út eins og þessu sé vel fyrir komið í 74. gr. almennra hegningarlaga og 146. gr. laga um meðferð sakamála. Vandi minn er sá að þau lög voru til staðar 2013 þegar mansalsmálið átti sér stað sem ég fjallaði um áðan. Lögreglan á Suðurnesjum taldi þetta enn þá vera vandamál árið 2018 svo að það lítur þannig út að í það minnsta lögreglan á Suðurnesjum beiti ekki þessum lögum þannig að henni sjálfri líki það vel þegar kemur að burðardýrum í fíkniefnamálum. Þannig að ég hygg að þetta sé enn þá vandamál. Mér er ekki alveg ljóst hvernig þetta myndi standa fyrir Hæstarétti. Ég leitaði að málinu hjá Hæstarétti og mér sýnist að því hafi ekki verið áfrýjað þangað á sínum tíma heldur hafi Héraðsdómur Reykjaness kveðið upp dóm yfir þessari konu, hún einfaldlega farið í fangelsi og málið ekki verið rætt meira en það. En greinilegt er af fréttinni 2018 að lögreglan á Suðurnesjum, í það minnsta, telur verklagið enn þá vera svona vegna laganna þannig að einhvers staðar er misbrestur hér. Nákvæmlega hvar hann er eða nákvæmlega hvernig eigi að laga hann er mér ekki alveg fullkomlega ljóst.

En, já, ég tel þetta klárlega vera vandamál sem þurfi að bregðast við með einhverjum hætti og, aftur, ekkert endilega með breytingum á þessu frumvarpi. Mér finnst þetta mikilvægt vegna þess að þegar kemur að því að útrýma einhverju slæmu í samfélaginu þá er það svo oft að við gleymum að líta til fórnarlambanna og brotaþola og hverjar afleiðingarnar af lögunum okkar eru raunverulega fyrir þá aðila. Við festumst svolítið í því að refsa vonda kallinum en gleymum því að huga að hagsmunum og réttindum þeirra sem verða fyrir brotunum.