151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[19:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mikill aðdáandi þess að læra af mistökum annarra enda gæti ég ekki margt án þeirra, meira að segja mjög þakklátur fyrir mistökin, að fá að læra af þeim. En það er ekki alveg það sama að taka fyrir eitthvert vandamál sem allir eru sammála um og síðan einhverja lausn sem allir eru sammála um og heimfæra það á einhver vandamál sem við eigum við að stríða hér. Málflutningurinn sem ég heyri er: Það var eitthvert vandamál þarna úti sem einhver beitti lagabreytingum til að sporna við og við ættum að gera það sama. Um leið og farið er út í eitthvað nákvæmlega þá vandast málið aðeins, þá er byrjað að tala um flóttafólkið sem kemur hingað, að það sé vandamál, að það kosti of mikla peninga og síðan auðvitað félagslegu vandræðin sem ég hef skynjað að fólk forðist að tala um hér í pontu vegna þess að það er hundleiðinlegt og erfitt málefni. Það er það sem við eigum að vera að tala um, ekki það að sósíaldemókratar í einhverjum Norðurlöndum hafi ályktað svona, að þeir séu svona eða hinsegin vinsælir.

Virðulegur forseti. Ég bara kaus ekki þessa flokka á Norðurlöndum og mér er persónulega alveg sama hvað þeim finnst, ég bara er ekki hluti af þeim. Þess vegna gefur það mér ekkert til að vinna með þegar hv. þingmaður talar svona, gefur mér ekkert að vinna með. Ég hef engu að svara, þess vega finnst mér þetta vera rökleysa, virðulegi forseti. Við munum ræða þetta síðar er ég viss um.