151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er væntanlega tví-, þrí- eða margþætt vandamál. Hluti vandans er væntanlega sá að fólk kemur úr ólíkum menningarheimum þar sem yfirvöld eru með misjöfnum hætti. Sums staðar er spilling allsráðandi í samfélaginu og sums staðar er hún lítil og auðvitað er birtingarmynd hennar mjög fjölbreytt. Það er einn hængur á. Ég sé ekki hvernig sá vandi verður leystur öðruvísi en með trúverðugri fræðslu sem er vitaskuld kannski vandamál vegna fyrrnefnds vantrausts.

En hitt er síðan að það þarf að mínu mati að vera skýrt í samskiptum við yfirvöld á öllum stigum að það muni ekki koma mansalsfórnarlambinu illa að vinna með yfirvöldum. Þar eru tveir aðilar sem mansalsfórnarlambið gæti óttast; annars vegar gerandinn, þrælapískarinn eða hvað við köllum viðkomandi, og hins vegar mögulega yfirvöld. Þegar við hugum ekki vel að lagasetningu í kringum það að brotaþoli mansals beri ekki refsiábyrgð þrátt fyrir að taka þátt í athæfi sem varðar við hegningarlög, ef við erum ekki skýr um það, þá hygg ég að það sé erfitt að byggja upp traust. Ef við erum alveg skýr um það þá er mögulega auðveldara að byggja það upp.

En til lengri tíma, og ég átta mig á því að þetta er ekki galdralausn, þá er að mínu mati mikilvægast að samfélagið almennt sendi þau skilaboð að það sé erfitt að kúga fólk með hótunum um að siga yfirvöldum á fólk. Ef vinnumaðurinn minn neytir kannabisefna og ég kemst að því einn daginn þá er betra að viðkomandi óttist ekki að vera handtekinn eða sviptur dvalarleyfi eða hvaðeina fyrir það. Það dregur úr valdi mínu sem yfirmanns sem myndi vilja kúga viðkomandi með því að beita ríkinu sem einhvers konar hótunartæki vegna hegðunar sem viðkomandi hefur sýnt, tilneyddur eða ekki tilneyddur. (Forseti hringir.) Ég aðhyllist almennt frjálst samfélag og tel að frelsið sé mikilvægur hluti af þessu. (Forseti hringir.) En auðvitað er þetta ekki einsleitt eða einfalt vandamál og þarna er margt sem þarf að huga að.