151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[19:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason fór hér áðan yfir það í ræðu sinni, sem var að meginstofni ágæt, að við stöndum okkur ekki nógu vel þegar kemur að því að veita lögreglunni það sem hún þarf til að berjast gegn mansali. Það liggur fyrir og er í sjálfu sér ekki umdeilt. Mögulega er hægt að deila um það hvernig við myndum vilja bregðast við því. Sjálfur hef ég tekið undir með fyrrnefndum hv. þingmanni þegar kemur að því að efla lögregluna hvað varðar til að mynda fjármagn og þjálfun og laun og þess háttar og að veita henni verkfallsrétt, bara sem dæmi. Það er nefnilega hætt við því að ef framkvæmdaraðilarnir fyrir þeim reglum sem við setjum hafa ekki bolmagn til að framfylgja reglunum þá dragi úr vægi þeirra og að þá sé leitað annarra leiða.

Ég tek oft sem dæmi: Ef tveir lögreglumenn rekast á tíu manna hóp sem er með læti og það þarf að taka á því þá grípa lögreglumennirnir kannski frekar til vopnsins en ef það eru sex lögreglumenn sem eiga við sama hóp. Að hafa lögregluna, og þar á meðal landamæragæsluna, nógu vel fjármagnaða, nógu vel launaða og nógu vel búna og menntaða þannig að hún geti tekist á við vandamálið er ákveðið lykilatriði til þess að löggjöfin geti yfir höfuð virkað. Síðan munum við auðvitað deila um það hversu frjálslyndar reglurnar eiga að vera. Mér er nú almennt ekki ljúft að vitna í Davíð Oddsson en ég verð að segja það með honum að reglurnar eiga að gilda en leikurinn á að vera frjáls. Þannig lít ég á það. Við eigum að hafa sem minnsta þörf fyrir löggæsluna og fyrir þessar stofnanir og þá hluti sem við notum, eins og fangelsi og landamæragæslu og þá tegund af valdbeitingu. Við þurfum að hafa þetta, þetta þarf að virka, og þetta þarf að vera vel fjármagnað, en við eigum að beita því sem minnst eftir því sem við mögulega getum, þó þannig að við náum tilsettum markmiðum. Það er ekki endilega einfalt. En svo ég svari þessu einfaldlega þá styð ég það heils hugar að lögreglan og landamæragæsla sé efld nógu vel til að hún geti sinnt því hlutverki sem henni er gefið.