151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[19:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið. Þetta er nefnilega mjög góð hugsun. Við eigum að hafa skýrar reglur og góðar reglur og við eigum að hafa þær þannig að það sé augljóst hvað má innan þessara reglna þannig að leikurinn geti verið frjáls. Ég er samt á þeim stað að ég held að í ljósi þeirra skýrslna sem ég hef lesið, t.d. frá ríkislögreglustjóra, að það sé jafnframt mikilvægt að þessir aðilar okkar hafi mögulega víðtækari heimildir. Ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvað þarf til, ég tek það skýrt fram, en að lögreglan og þeir aðilar sem vinna að þessum málum hafi heimildir, hvort sem það er til aukins samstarfs við útlönd eða einhvers konar forvirkar heimildir, eða hvað það kallast, ég sá nú eitthvert nýtt nafn á þessu um daginn, ég man ekki hvað það er, en alla vega að það sé hægt að grípa fyrr inn. Það er það sem mig langar að sjá.