151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

skimanir fyrir leghálskrabbameini.

[13:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið en lýsi um leið yfir vonbrigðum með forystuleysið í þessu máli. Í Kastljósi í gær ræddu forsvarskonur hópsins Aðför að heilsu kvenna og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um þetta neyðarástand og var honum nokkur vorkunn, enda var þetta ekki hans ákvörðun heldur stjórnvalda þrátt fyrir eindregna andstöðu meiri hluta fagráðs um krabbameinsskimanir og meiri hluta skimunarráðs að fara í þessa feigðarför.

Hæstv. forsætisráðherra. Það er ekki bara tíminn sem skiptir hér máli heldur hafa fagaðilar, sérfræðingar, talað um þetta algjöra sambandsleysi milli lækna sem taka sýni og rannsóknaraðila, að þar sé hættuástand, að geta ekki átt samtal um sögu konunnar sem um ræðir.

Í nýrri innlendri úttekt á heilsu þjóðarinnar út frá jafnréttis- og kynjasjónarmiðum kemur fram að konur á Íslandi virðast búa við lakara heilsufar og verri lífsgæði en karlar. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þau skilaboð. Í heimsfaraldri vegna kórónuveirufaraldursins hefur hæstv. forsætisráðherra ítrekað hrósað sjálfri sér og ríkisstjórninni fyrir að hafa fylgt ráðum sérfræðinga og það var fyrri spurning mín: Hvers vegna treystið þið ekki okkar færustu sérfræðingum þegar kemur að lífshættulegum sjúkdómum eins og leghálskrabbameini? Hvers vegna látið þið mánuðum saman eins og þið heyrið ekki þetta ákall í öllum þessum sérfræðingum sem koma í viðtal eftir viðtal og lýsa áhyggjum?