151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur kærlega fyrir andsvarið og vil leiðrétta hv. þingmann því að sú sem hér stendur sagði aldrei að hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir hefði ekki kynnt sér málið. Hún getur þá kannað það… (HSK: Þú sagðir að framsögumaður væri ekki …)

(Forseti (BHar): Ræðumaður hefur orðið.)

Sú sem hér stendur sagði ekkert um að hv framsögumaður væri ekki eins vel inni í málinu og aðrir. Sú sem hér stendur ræddi það eingöngu að margir í minni hlutanum hefðu verið í umræddri þingmannanefnd, en talaði aldrei um að hv. þingmaður væri ekki vel að sér eða hefði ekki kynnt sér málið eins og hún vildi láta hér áðan.

Varðandi það að hv. þingmaður hafi neitað umræðu um málið þá var þetta mál til umræðu eftir að nefndarfólk hafði náð að kynna sér málið. Hv. þingmaður dreifði nefndaráliti að kvöldi fimmtudags og fundur í velferðarnefnd var að morgni föstudags. Þetta er viðamikið mál og þar sem hv. þingmaður hafði fyrr um daginn sagt að það myndi ekki nást er rétt að það komi fram að þá sátu nefndarmenn á föstudagsmorgni og höfðu ekki náð að kynna sér nefndarálitið og gátu þess vegna ekki á þeim tímapunkti hafið umræðu um málið. Þess vegna var algjörlega talað um það að umræða um málið færi fram á næsta fundi nefndarinnar á þriðjudegi. Slík umræða fékk hins vegar ekki að klárast og það geta þeir sem sitja í hv. velferðarnefnd vottað, enda var það bókað af minni hlutanum að þetta hefði ekki verið faglega gert.

Sú sem hér stendur var með fjölmargar ábendingar sem hún óskaði eftir að fá að koma á framfæri, bað hv. þingmann einlæglega um að leyfa umræðu daginn eftir, líka þar sem nefndin átti einnig (Forseti hringir.) fund á miðvikudagsmorgni en hv. þingmaður neitaði því.