151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með frumvarpi til laga um Barna- og fjölskyldustofu frá meiri hluta velferðarnefndar. Fyrir nefndina komu fjölmargir gestir og nefndinni bárust einnig umsagnir og minnisblöð. Þessi mál voru rædd saman í nefndinni enda eru þau samtvinnuð þeim sem um var rætt áðan eins og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Ég fór yfir sögu og aðdraganda þessa máls, eins og í fyrra málinu, og ég er ekkert að endurtaka það því að að þessum málum var unnið samhliða og mikið og þarft og gott verk þar sem margir lögðu hönd á plóg, fólk hvaðanæva af landinu, bæði í sveitarfélögum, þjónustuveitendur, þjónustuþegar, börn og fullorðin. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að þessi forvinna hafi átt sér stað því að við erum hér að vinna að mjög stóru verkefni sem á að virka til framtíðar.

Ég vil líka í upphafi máls þakka velferðarnefnd fyrir vinnuna því að við höfum verið með þetta mál í allan vetur. Það hafa verið margir fundir og tíðar gestakomur. Ef við tækjum saman þann tíma sem málið hefur verið í umfjöllun í nefndinni þá hugsa ég að það telji nokkrar klukkustundir. Þannig að þetta mál hefur verið vel rætt í nefndinni. Umfjöllun fer alltaf líka fram þegar gestir koma, þá erum við að spyrja og þau að svara og það verður til umræðuvettvangur á milli nefndarmanna og gesta og einnig milli okkar. En líkt og fyrr greinir er lagt til í frumvarpinu að sett verði á fót ný ríkisstofnun sem heyri undir félagsmálaráðuneytið. Stofnunin, sem mun bera heitið Barna- og fjölskyldustofa, tekur við fjölbreyttum verkefnum á sviði barnaverndar, m.a. almennum stuðningi við stjórnvöld, ráðgjöf vegna einstakra mála og uppbyggingu og yfirstjórn heimila, stofnana og sérhæfðra úrræða. Þannig fari stór hluti verkefna Barnaverndarstofu til Barna- og fjölskyldustofu en önnur verkefni Barnaverndarstofu færist til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Verði frumvörpin að lögum verður Barnaverndarstofa lögð niður. Í umsögnum til nefndarinnar var bent á að málaflokkur barnaverndar hefði sérstöðu, einkum vegna þeirra ríku heimilda sem barnaverndaryfirvöld hafa til afskipta af einkalífi fjölskyldna. Af þeim sökum töldu umsagnaraðilar að Barna- og fjölskyldustofa ætti að verða skilgreind sem sjálfstæð stofnun en ekki heyra undir yfirstjórn ráðherra. Meiri hlutinn bendir á að Barna- og fjölskyldustofa muni ekki hafa aðkomu að ákvörðunum í barnaverndarmálum. Þrátt fyrir að barnavernd verði mikilvægur þáttur á stofnuninni verður gert ráð fyrir að hún fari með ný og fjölbreyttari verkefni. Verður á ábyrgð ráðherra að móta sameiginlega stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna og verða verkefni stofnunarinnar á sviði samvinnu, samþættingar og samræmingar.

Meiri hlutinn telur því mikilvægt að stofnunin lúti yfirstjórn ráðherra í samræmi við almennar reglur, m.a. til að koma í veg fyrir að vafi leiki á framfylgd stefnu og áætlanagerðar um farsæld barna. Þá bendir meiri hlutinn sérstaklega á að ráðherra og ráðuneyti eru bundin af efnisreglum stjórnsýsluréttar og verða að byggja athafnir sínar og ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum. Það er mat meiri hlutans að með því að stofnunin lúti yfirstjórn ráðherra verði frekar unnt að koma í veg fyrir ómálefnaleg afskipti af einstaklingsmálum. Að þessu virtu tekur meiri hlutinn ekki undir framangreind sjónarmið.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að Barna- og fjölskyldustofa myndi ekki starfa á grundvelli laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Meiri hlutinn bendir á að fyrir liggja skýrslur um mögulega samlegð verkefna sérhæfðra þjónustustofnana sem heyra undir félags- og barnamála-, heilbrigðis- og mennta- og menningarmálaráðherra. Í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki lagt til að tengja verkefni slíkra stofnana saman, en meiri hlutinn tekur undir sjónarmið félagsmálaráðuneytisins um að fullt tilefni sé til að taka það til nánari skoðunar.

Gjaldtaka. Í umsögnum fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að Barna- og fjölskyldustofu verði heimilt að taka gjald fyrir verkefni sem stofnunin sinnir, samanber 8. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um nýja 7. gr. barnaverndarlaga. Benda umsagnaraðilar á að ákvæðið sé óljóst og að slík gjaldtaka skapi ójafnræði meðal þeirra sem leita þurfi úrræða á vegum stofnunarinnar. Meiri hlutinn bendir á að engar efnislegar breytingar eru gerðar á heimildum til gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem nefnd er í frumvarpinu og er gjaldtökuákvæði frumvarpsins óbreytt frá núgildandi ákvæðum sem kveða á um sömu þjónustu.

Þær breytingartillögur sem nefndin gerir eru eins og ég rek hér á eftir. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að í frumvarpinu mætti vera skýrari áhersla á mannréttindi þeirra hópa sem því er ætlað að vernda. Meiri hlutinn tekur undir þær athugasemdir og telur mikilvægt að í frumvarpinu verði áréttaðar skyldur stjórnvalda til að túlka réttindi sem leiðir af lögunum til samræmis við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðlegar skuldbindingar. Meiri hlutinn leggur til að við 3. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði sem ættu að ná fram þessu markmiði.

Vinnsla persónuupplýsinga: Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimildir Barna- og fjölskyldustofu til vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við verkefni stofnunarinnar. Í umsögn Persónuverndar kemur fram tillaga að orðalagsbreytingu í 2. mgr. ákvæðisins með það að markmiði að skýrt sé kveðið á um að miðlun samkvæmt ákvæðinu sé ekki umfram það sem nauðsynlegt megi teljast í samræmi við meðalhófskröfu laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Meiri hlutinn tekur undir þá tillögu Persónuverndar og leggur til breytingu á ákvæðinu þess efnis.

Og önnur atriði: Meiri hlutinn telur þörf á að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og lúta ekki að efnisþáttum frumvarpsins, m.a. til að gæta að samræmi milli lagabálka og sjónarmiðum um íslenska tungu. Þarfnast tillögurnar því ekki frekari útskýringa.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu sem ég hef þegar kynnt.

Undir þetta álit rita framsögumaður, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason.