151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en vil ítreka annað sem ég hef séð hérna og það eru áhyggjur frá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra um þeirra málefni og það kemur hér fram í nefndarálitinu um sérhæfðar þjónustustofnanir. Þar er sérstaklega tekið á þessu og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki lagt til að tengja verkefni slíkra stofnana saman en meiri hlutinn tekur undir sjónarmið félagsmálaráðuneytis um að fullt tilefni sé til að taka það til nánari skoðunar.“

Er ekki bara alveg sjálfsagt að hafa þetta inni? Nú eru þessir aðilar að kalla eftir þessu og síðan eru það Þroskahjálp og Sjónarhóll. Öryrkjabandalagið er einnig með áhyggjur af lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna. Er einhver áætlun í þessu kerfi um að sjá til þess að öll þessi kerfi verði tekin og þau tali saman inn í þetta nýja kerfi svo að þessir aðilar þurfi ekki að hafa áhyggjur? Við vitum að fatlað fólk hefur þurft að bíða og er yfirleitt aftast í röðinni. Þarna erum við að tala um börn þannig að við verðum að fara að bretta upp ermarnar og taka á þessum málum og láta ekki þessa einstaklinga bíða einu sinni enn eða verða út undan einu sinni enn, heldur taka strax á því og sjá til þess að þeirra málefni og sjónarmið komi fram og að það sé brugðist við.