151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu. Þetta er eitt af þeim málum sem eru í þessum pakka, sem eru þrjú ef ekki fjögur mál. En þetta eru allt góð mál og mér sýnist á öllu eftir umræðuna í dag að hægt verði að taka þessi mál og halda vel utan um þau í velferðarnefnd. Þau fara þangað á milli 2. og 3. umr. Ég heyri að við eigum alveg að geta fundið þann grundvöll og það á ekki að vera neinn ágreiningur um þessi mál vegna þess að þetta eru mjög mikilvæg mál og skipta sköpum. En auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur af því þegar verið er að búa til nýtt kerfi, bæði af tímanum sem fer í að byggja það upp og líka áhrifum gamla kerfisins á meðan verið er að byggja upp nýja kerfið.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af, og ég vil ítreka það, er að í þessu öllu þarf að taka tillit til allra þeirra sem eru í þessu kerfi. Bara t.d. í þessu máli, Barna- og fjölskyldustofu, eru 15 innsend erindi frá hópum eins og Þroskahjálp, Öryrkjabandalaginu og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta. Þessir hópar eru eðlilega með áhyggjur og það er ósköp eðlilegt að þeir sem hafa farið illa út úr íslenska kerfinu séu með áhyggjur.

Við megum ekki gleyma þeim sem verst hafa það í þjóðfélaginu, þar eru börn innan um og aðstæður þeirra geta verið mjög slæmar, bæði varðandi fátækt og svo líka kannski varðandi ýmis veikindi sem hrjá þennan hóp. Það er sannað og hefur komið fram að lífsgæði þessara einstaklinga sem alast upp við aðstæður þar sem fjármagn er takmarkað, og þar af leiðandi eru lífsgæðin ekki á neinn hátt eðlileg miðað við það sem á að vera, eru ekki á sama plani og okkar hinna sem höfum það betra.

Þess vegna er svo mikilvægt að tekið sé á málunum á allan hátt og eiginlega nauðsynlegt í þessu samhengi, eins og ég hef ítrekað og ætla að ítreka enn einu sinni, að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk. Það er grundvallaratriðið í þessu öllu, að við séum þar og gætum líka að mannréttindum vegna þess að það eru auðvitað sjálfsögð mannréttindi að samningur um fatlað fólk sé lögfestur vegna þess að það hefur sýnt sig að meðan hann er það ekki þá er mjög hæpið að þeirra réttindi og mannréttindi séu virt. Og síðan þarf auðvitað að tryggja að það sé séð til þess að það séu ekki endalausir biðlistar hjá talmeinafræðingum og fleiri aðilum.

Með Barna- og fjölskyldustofu á að búa til nýja stofnun, ég hef áhyggjur af því. Það segir sig sjálft að um leið og við byggjum upp nýja stofnun gæti hún orðið að bákni og við verðum að passa að á meðan á uppbyggingu hennar stendur og á meðan verið er að fjölga fólki og þjálfa fólk þá lengist ekki biðlistar og einhver börn detti út úr kerfinu og fái enga hjálp. Sú er hættan vegna þess að eins og staðan er í dag þá virkar kerfið ekki. Það er langt frá því að það virkaði og það segir sig sjálft að ef við erum með 1.000 börn á biðlistum og e.t.v. 600 börn á Greiningarstöð, og við erum með biðlista eftir biðlista til að komast á biðlista, að þetta er meingallað kerfi. Þess vegna er ég svo ánægður með að við séum að reyna að koma öðru kerfi á.

En það sem ég óttast mest er hvað verður um þá sem eru í þeirri aðstöðu að þurfa hjálp núna, ekki í gær, ekki á morgun heldur núna. Það er þar sem skórinn kreppir að. Ég veit að talað er um að verið sé að leggja einhverja fjármuni í þetta. En biðlistarnir lengjast alltaf og börnin þurfa að bíða. Það er eitthvað ómannúðlegt við að vera með kerfi þar sem börn þurfa að bíða svona lengi. Þess vegna skilar allt þetta sér vonandi og vonandi tekst okkur að fara með þetta í velferðarnefnd og reyna að samþætta þetta þannig að allir geti tekið þátt í þessu. En það tekur auðvitað tíma að byggja þetta upp. Við vitum það og það er alveg á hreinu að það þarf að taka tillit til tungumála, þroska og ýmissa hluta í þessu. Síðan er hver og einn aðili búinn að byggja upp ákveðið kerfi; það er eitt kerfi hjá heyrnarlausum og sjónskertum, annað kerfi hjá Landssamtökunum Þroskahjálp og síðan er enn annað kerfi annars staðar og þessi kerfi eiga síðan öll að tala saman. Ég hef auðvitað áhyggjur af því hvernig við ætlum að fá þau til þess og hversu langan tíma það tekur og hvernig hægt er að samtengja þau þannig að þau tali saman þannig að það skili sér í betri þjónustu, sneggri þjónustu, og líka að vinna á biðlistunum. Það er hörkuvinna vegna þess að við vitum að fólk þarf að bíða á biðlistum allt upp undir þrjú ár. Það segir okkur að það þarf aldeilis að bretta upp ermarnar og er löngu tímabært að við gerum það. Vonandi tekst það með þessum frumvörpum sem við erum búin að vera að tala um og á eftir að tala hér um tvö í viðbót. En ég ætla að láta þetta duga um þetta mál og taka síðan við því í velferðarnefnd og skoða það betur þar og reyna allt sem hægt er til að afgreiða þessi mál út í sátt og samlyndi.