151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Barna- og fjölskyldustofa.

355. mál
[18:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir andsvarið. Jú, ég verð bara að segja það að ég þekki málið, því miður, af eigin reynslu, bæði í sambandi við fatlað barn, að vera í félagi eins og Sjálfsbjörg, Sjálfsbjargarheimilinu, Öryrkjabandalaginu og á fleiri stöðum áður en ég kom inn á þing og síðan að vera í þessu kerfi í á annan tug ára. Þess vegna vona ég svo heitt og innilega að ég hafi rangt fyrir mér. En það er alltaf þessi efi og þessi reynsla sem kennir manni að það sem maður hefur oft á tilfinningunni að sé of gott til að vera satt sé það. Þess vegna óttast ég þetta. Þetta eru mörg mál, þetta eru fjögur mál og spanna ótrúlega stórt svið.

Það þarf að sameina ótrúlega margt til að þetta gangi upp og það sem ég óttast er að tímaramminn sem er settur á þetta sé of stuttur, ég er sannfærður um það, við vitum að hann verður of stuttur. En spurningin er bara hvort við náum þessu og ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en ég vona að kannski eftir fjögur ár þá standi maður hérna í þessum ræðustól og hugsi með sér: Ja, bíddu, hvað hefur áunnist í þessi kerfi? Ég stend í þessum ræðustól í dag og segi: Bíddu, hvað hefur áunnist í kerfi fyrir eldri borgara? Því miður. Ávinningurinn er mjög lítill vegna þess að hann hefur ekki skilað sér til þeirra á þessu tímabili.