151. löggjafarþing — 106. fundur,  3. júní 2021.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

356. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Nefndin hefur fjallað um málið. Hér hafa verið frumvörp sem hafa verið rædd saman í velferðarnefnd þannig að gestir sem komu fyrir nefndina í málunum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og Barna- og fjölskyldustofu komu einnig fyrir nefndina í þessu máli og umsagnir bárust frá fjölda aðila. Í nefndarálitinu er forsaga málsins rakin og sú vinna sem hefur farið fram þannig að ég er ekki að endurtaka það.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót ný ríkisstofnun sem heyri undir félagsmálaráðuneyti. Stofnunin, sem mun bera heitið Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, mun taka við fjölbreyttum verkefnum á sviði barnaverndar. Hluti verkefna Barnaverndarstofu mun þar með færast til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála en önnur verkefni Barnaverndarstofu munu færast til Barna- og fjölskyldustofu. Verði frumvörpin að lögum verður Barnaverndarstofa lögð niður.

Samkvæmt frumvarpinu mun Gæða- og eftirlitsstofnun fá það verkefni að veita leyfi til fósturforeldra en nú eru slíkar leyfisveitingar hjá Barnaverndarstofu samkvæmt gildandi barnaverndarlögum. Nefndinni bárust athugasemdir um þetta fyrirkomulag og telja sumir umsagnaraðilar að slíkar leyfisveitingar eigi fremur heima hjá Barna- og fjölskyldustofu. Meiri hlutinn bendir á að markmið 5. gr. frumvarpsins er að koma á samræmdri og almennri leyfisskyldu þegar einkaaðilar veita þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að auka virkni eftirlits með því að aðskilja eftirlit frá öðrum verkefnum og tryggja að eftirlitsaðili geti beitt viðurlögum ef tilefni er til, í þessu tilviki í formi leyfissviptinga. Meiri hlutinn telur mikilvægt að leyfisveitingar og leyfissviptingar séu á sömu hendi. Annað fyrirkomulag gæti mögulega skapað óvissu um valdmörk og kröfur til leyfishafa ef leyfisveitingar eru hjá einni stofnun en heimildir til sviptingar leyfis hjá annarri stofnun. Meiri hlutinn telur það því ekki samræmast grunnhugmyndum um verkaskiptingu milli þessara nýju stofnana að Barna- og fjölskyldustofu verði falin eftirlitsverkefni. Að mati meiri hlutans á slíkt eftirlit fremur heima hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að í frumvarpinu mætti vera skýrari áhersla á mannréttindi þeirra hópa sem því er ætlað að vernda. Meiri hlutinn tekur undir þær athugasemdir og telur mikilvægt að í frumvarpinu verði skyldur stjórnvalda til að túlka réttindi sem leiðir af lögunum til samræmis við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðlegar skuldbindingar áréttaðar. Meiri hlutinn leggur til að við 3. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði sem ætti að ná fram því markmiði.

Í 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála geti framkvæmt „vettvangsathuganir á heimilum, stofnunum og öðrum starfsstöðvum þar sem veitt er þjónusta sem lýtur eftirliti stofnunarinnar“ og að stofnuninni sé heimilt að framkvæma óboðaðar vettvangsathuganir. Nefndinni bárust athugasemdir um þetta efnisatriði þar sem bent er á að slíkar óboðaðar vettvangsathuganir á heimilum geti falið í sér víðtækt inngrip í stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldna þeirra sem þar búa og þurfi þar af leiðandi að vera skýrar.

Meiri hlutinn bendir á að hugtakið „heimili“ eigi að ná yfir úrræði XIII. og XIV. kafla barnaverndarlaga, m.a. meðferðarheimili og vistheimili, en ekki einkaheimili. Meiri hlutinn telur þörf á að skýra ákvæðið frekar til að fyrirbyggja þann misskilning að stofnuninni sé heimilt að framkvæma vettvangsathuganir á einkaheimilum. Leggur hún til breytingartillögu þess efnis.

Í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um að kvartanir yfir þjónustu skuli vera skriflegar. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að viðkvæmir hópar samfélagsins geti átt erfitt með að senda inn skriflegar kvartanir. Meiri hlutinn tekur undir þessa ábendingu og leggur til að gerð verði breyting á 2. og 3. málslið 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins sem tekur mið af henni.

Samband íslenskra sveitarfélaga benti á í umsögn sinni að ekki sé til staðar almennt ákvæði um samráð við sambandið um setningu stjórnvaldsfyrirmæla og tilhögun gæðaviðmiða. Meiri hlutinn tekur að einhverju leyti undir þessar athugasemdir sambandsins en leggur áherslu á að samráð sé einnig haft við aðra hagsmunaaðila. Þá geta reglugerðir ráðherra fjallað um þjónustu sem er veitt af bæði ríki og sveitarfélögum og því telur meiri hlutinn ekki þörf á að lögfesta skyldu til samráðs við sveitarfélög um öll stjórnvaldsfyrirmæli heldur eingöngu þau sem varða sveitarfélög. Meiri hlutinn leggur því til að nýtt ákvæði bætist við frumvarpið þar sem kveðið er á um skyldu ráðherra til að hafa samráð annars vegar við Samband íslenskra sveitarfélaga þegar við á og hins vegar við aðra hagsmunaaðila þegar við á.

Meiri hlutinn telur þörf á að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og lúta ekki að efnisþáttum frumvarpsins. Meðal annars leggur meiri hlutinn til orðalagsbreytingu á 2. málslið 2. mgr. 12. gr. þar sem fjallað er um alvarleg og óvænt atvik. Aðrar breytingartillögur þarfnast ekki frekari útskýringa.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef kynnt.

Undir þetta álit skrifa hv. þingmenn Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason.

Ég sem framsögumaður þessa meirihlutaálits kalla það hér með inn í nefndina milli 2. og 3. umr. Mér láðist að gera það áðan með hin frumvörpin en þessi þrjú frumvörp fara til nefndar á milli 2. og 3. umr.

Ég hef lokið máli mínu.