151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

um fundarstjórn.

[13:12]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég hef séð utanríkismálanefnd smám saman hrapa í gæðum á þessu kjörtímabili. Nú er ég reyndar ekki í nefndinni lengur en ég veit ekki hversu oft ég hugsaði á síðustu metrunum þegar ég var þar að það væri orðið eitthvað sturlað þegar maður væri farinn að sakna hæstv. ráðherra Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur úr formannsstólnum þar. Það er ákveðið merki.

En svo það sé sagt: Ef það er rétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að núverandi hæstv. utanríkisráðherra hafi verið með óvenjumikið samráð við utanríkismálanefnd þá get ég ekki ímyndað mér hversu lítið það hefur verið áður. Það þarf alvarlega, og hefur þurft mjög lengi, í marga áratugi eftir því sem ég kemst lengst, að auka aðkomu þingsins að utanríkismálum á öllum stigum. Það er til skammar að það skuli gerast aftur og aftur að utanríkismálanefnd viti hreinlega ekki einfalda hluti sem eru í gangi.