151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[13:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hingað og nefna áhyggjur mínar af lokamálsliðnum í greinargerð frumvarpsins um greinarnar sem eru í því. Þar er fjallað um refsiábyrgð þolenda mansals. Ég hef áhyggjur af því að frumvarpið lýsi bjartari mynd en raunin er um það hvernig sé komið til móts við það að auðvitað á ekki að vera refsiábyrgð á þolenda mansals þegar þeir taka þátt í athæfi sem annars er ólöglegt, segjum fíkniefnasmygli eða einhverju því um líku. Af því sem ég hef lesið í fjölmiðlum og veit af málum þá sýnist mér þetta enn vera vandamál og þá á ég við með tilliti til 74. gr. almennra hegningarlaga og 146. gr. laga um meðferð sakamála. Þar virðist raunin ekki alveg stemma við lagatextann eða það sem er lýst í greinargerð, eftir því sem verður best séð, og ég vona að það verði skoðað betur í kjölfarið og lagað. (Forseti hringir.) Að því sögðu hefur það engin áhrif á ágæti þessa frumvarps í sjálfu sér og styð ég það að sjálfsögðu.