151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[13:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta frumvarp og samþykki það, enda gott mál, en það hefði getað verið svo miklu betra. Það eru nokkur atriði sem umsagnaraðilar bentu á sem er litið fram hjá í þessu nefndaráliti. Þar er bara farið í gegnum það hverjar ábendingarnar voru og svo er talað um að einhverjir aðrir hlutir einhvers staðar í framtíðinni, mögulega samkvæmt einhverri þingsályktun, geti lagað það. Til dæmis finnst mér að það hefði mátt standa miklu betur með erlendu vinnuafli eða bara vinnuafli á Íslandi almennt þegar kemur að vinnumansali. Það er ekki skýrt í lagatextanum sjálfum að það að vinna við algerlega óásættanlegar aðstæður sé klárlega líka eitthvað sem gæti fallið undir vinnumansal. Við hefðum getað verið með miklu skýrari og betri skilgreiningu á því að það sé ekki bara þrælkun eða eitthvað því um líkt heldur einnig hlutir þar sem er einfaldlega mjög skýrt að viðkomandi njóti ekki fullra réttinda og verið að misnota vinnuafl að öðru leyti. Þetta hefði getað verið í lögunum og ég skil eiginlega ekki af hverju ekki. Ég vona bara að við gerum betur næst og stöndum enn betur við bakið á þolendum mansals.