151. löggjafarþing — 107. fundur,  4. júní 2021.

breyting á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði og bankamarkaði .

689. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið gesti á sinn fund. Það bárust umsagnir frá Samkeppniseftirlitinu og Seðlabankanum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum sem gilda á vátryggingamarkaði og bankamarkaði. Tildrög breytinganna eru þríþætt og er frumvarpinu ætlað að bregðast við annmörkum eða ósamræmi í lögum eða á milli lagabálka sem Fjármálaeftirlitið hefur greint við eftirlitsstörf, bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA og ljúka innleiðingu tiltekinna gerða.

Það eru lagðar til breytingartillögur eins og fram kemur í nefndarálitinu, þ.e. við 15. tölulið 3. gr. laganna, við 13. gr. og síðan breytingar á 3. og 4. mgr. 12. gr. laganna. Að auki eru lagðar til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem eru lagðar til í sérstöku þingskjali. Undir álitið rita Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, Jón Steindór Valdimarsson, Oddný G. Harðardóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Hjálmar Bogi Hafliðason.