151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[19:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Kæru landsmenn. Það er vor í lofti og tilhlökkun í fólki. Með góðum árangri í bólusetningum ættum við sem flest að geta komist inn í sumarið með von um bjartari tíma. Við skulum vera framlínufólkinu þakklát, það hefur staðið í stafni baráttunnar síðasta árið, hlúð að hinum veiku, varið okkur hin, gert börnum kleift að sækja skóla og látið lífið ganga svona eins og mögulegt var. Það berast líka jákvæðar fréttir af ferðaþjónustunni, þeirri mikilvægu atvinnugrein. Það er gleðilegt að heyra af smáum fyrirtækjum úti um allt land, fjölskyldufyrirtækjum og einyrkjum, sem eru byrjuð að horfa upp á bókanir eftir að hafa þreytt mjög erfiðan þorra. Um leið og við gleðjumst yfir því að hlutirnir séu að færast í eðlilegt horf skulum við tryggja að það takist vel til við uppbyggingu atvinnulífsins, að við ræsum ekki upp gömlu vélina óbreytta, að við fjölgum stoðum, sláum nýja tóna og að við styðjum miklu betur við nýsköpun og fjárfestum þannig að ferðamenn geti dreifst vel um landið.

Við getum hins vegar ekki horft fram hjá því að faraldurinn hefur lagst misþungt á fólk, bæði heilsufarslega en ekki síður efnahagslega. Og nú þegar heildarmyndin af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar síðasta árið er farin að teiknast upp stefnir í það sem hagfræðingar kalla K-laga kreppu, þ.e. sumir verða efnaðri á meðan aðrir hafa minna milli handanna en áður. Það var einfaldlega ekki gripið til nógu markvissra aðgerða til þess að beina fjármagninu þangað sem þurfti. Fólk hefur neyðst til að eyða sparnaði sínum eða jafnvel skuldsetja sig til að komast í gegnum hryllilegar aðstæður. Síðasta ár höfum við þess vegna séð óvenjuskýrt hversu lítið samhengi er oft á milli meðaltala og aðstæðna einstakra hópa því að þótt tekjujöfnuður mælist mikill hér á landi fer eignaójöfnuðurinn hratt vaxandi. Svör úr fjármálaráðuneytinu sýna að lítill hópur einstaklinga rakar til sín meginþorranum af öllum nýjum auð í landinu og bilið milli almennings og fárra auðjöfra eykst og þessir auðjöfrar sölsa undir sig fleiri og fleiri staði samfélagsins. Þess vegna vill Samfylkingin berjast gegn ójöfnuði hvar sem hann er að finna. Það er ekki bara réttlátt í sjálfu sér að jafna tækifæri og lífskjör fólks, mikill jöfnuður er undirstaða heilbrigðs samfélags og grundvöllur öflugs efnahagslífs.

Loks verðum við að horfa í gegnum kófið sem veirufaraldurinn þyrlaði upp og skoða hvað þessi ríkisstjórn hefur áorkað á kjörtímabilinu og hversu vel núverandi stjórnarmynstur er líklegt til að geta mætt flóknum áskorunum framtíðar.

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf kjörtímabilsins sagði heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta: „Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu …“

Skoðum þá aðeins stöðu heilbrigðismálanna í lok kjörtímabilsins. Að sögn formanns Félags bráðalækna hefur aldrei verið jafn alvarleg undirmönnun á bráðadeild Landspítalans og stefnir í í sumar og yfirgnæfandi líkur á alvarlegum atvikum, jafnvel mannslátum, á deildinni. Hjúkrunarheimili víða um landið stefna í þrot vegna áralangrar vanfjármögnunar ríkisins og íslensk ungmenni fá ekki nauðsynlega geðheilbrigðisþjónustu. Þá er enginn geðlæknir í fastri stöðu úti á landsbyggðinni. Þetta eru verk ríkisstjórnarinnar.

Nú í kjölfar heimsfaraldurs ættum við einmitt að verðlauna ósérhlífni heilbrigðisstarfsfólks og samstöðu almennings með því að fjármagna íslenskt heilbrigðiskerfi með fullnægjandi hætti. Almenningur hefur kallað eftir því í mörg ár.

Af þessu, herra forseti, er aðeins hægt að draga eina ályktun og hana allt aðra en heilbrigðisráðherra gerði í upphafi kjörtímabilsins. Heilbrigðiskerfinu hér verður ekki bjargað með ríkisstjórn málamiðlana, kyrrstöðu, hvað þá niðurskurðar. Það getur hins vegar vel verið að þetta óvenjulega stjórnarmynstur íhaldsflokkanna hafi hentað til að kæla stöðuna eftir skandala síðustu stjórna en þessir flokkar munu ekki finna þann samhljóm sem þarf til að takast á við risastórar áskoranir framtíðar. Við höfum meira að segja séð fjölda framfaramála stranda uppi á sjálfu ríkisstjórnarborðinu þrátt fyrir líklegan meiri hluta í þingsal. Ég nefni afglæpavæðingu, rammaáætlun, hálendisþjóðgarð og auðvitað almennilegt auðlindaákvæði.

Það er þess vegna, kæru landsmenn, nauðsynlegt að greiða veginn fyrir nýja ríkisstjórn að loknum kosningum sem er sammála um veginn og verkefnin fram undan, ríkisstjórn sem er óhrædd við nýja framtíð og er nógu opin til að nýta skapandi lausnir til að ráðast gegn ójöfnuði, loftslagsógninni og breytingum á vinnumarkaði, ríkisstjórn sem er tilbúin til að byggja upp, ekki skera niður eins og ríkisstjórnin boðar í fimm ára fjármálaáætlun. Það er beinlínis hrollvekjandi, herra forseti, að í stað þess að ætla að bæta almannaþjónustuna og fjárfesta í fólki ætli ríkisstjórnin að hefja niðurskurðarhnífinn á loft.

Kæru landsmenn. Samfylkingin er tilbúin að fara í ríkisstjórn um framfarir, aukinn jöfnuð, almannahagsmuni og sókn út úr þessari kreppu. — Gleðilegt sumar.