151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Eitt af einkennum hægri stjórna er að ráðast að eftirlitsstofnunum og veikja þá sem standa vörð um almannahag og búa svo um hnútana að þeir sem eiga mikið fái meira. Núverandi ríkisstjórn er engin undantekning í þeim efnum. Þau hafa nýtt kjörtímabilið vel til þessara verka. Áður en faraldurinn skall á voru stjórnarflokkarnir búnir að gera Fjármálaeftirlitið að deild í Seðlabankanum og í kjölfarið tóku þau til við að veikja Samkeppniseftirlitið. Hættan á blokkamyndun, samþjöppun fyrirtækja, auðs og valds, er mikil í þeim aðstæðum sem nú hafa skapast. Að veikja Samkeppniseftirlitið og gera minni kröfur býr til kjöraðstæður fyrir ráðandi fyrirtæki á fákeppnismarkaði og er því alls ekki rétta leiðin. Slíkt gengur augljóslega gegn almannahagsmunum.

Þá var Neytendastofa holuð að innan og embætti skattrannsóknarstjóra lagt niður sem sjálfstæð stofnun. Skattrannsóknir fara nú fram í deild í Skattinum með mildari refsingum og óvissu um hver eigi að rannsaka stærri skattsvikamál. Í Panama-skjölunum voru margir efnaðir Íslendingar og rannsókn málanna flókin. Samherjaskjölin kalla líka á viðamikla rannsókn á flóknum millifærslum og skoðun í að minnsta kosti þremur löndum. Hagur almennings er ekki varinn með því að draga tennurnar úr skattrannsóknum hér á landi.

En þetta er ekki allt. Ríkisstjórninni liggur mikið á að selja hluti í Íslandsbanka áður en kjörtímabilinu lýkur, og það áður en lykilspurningum um framtíðarbankakerfi hefur verið svarað; um bankakerfi sem á að þjóna venjulegu fólki og fyrirtækjum til langs tíma en ekki skammtímahag sérhagsmunaafla. Eftir söluna geta nýir eigendur tekið til við að greiða út arð og draga úr lánveitingum. Þannig hefur ríkisstjórnin markvisst verið að búa í haginn fyrir þá sem sýsla með mikla peninga hér á landi.

Ítrekað höfum við í Samfylkingunni bent á að yfirráð fárra yfir fiskveiðiauðlindinni gefi þeim fáu aukin völd og við höfum bent á að staða þeirra sé óeðlilega sterk gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum. Völd þeirra geta verið skaðleg og áhrif þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu geta unnið gegn almannahag. Nákvæmlega þetta hefur sýnt sig svo greinilega undanfarið með Samherjaskjölunum og eftirmálum þeirra: Mútugreiðslur, skattsvik, peningaþvætti og óeðlileg afskipti af umfjöllun fjölmiðla og stjórnmálamanna.

Verðmætar eignir sem orðið hafa til vegna aðgangs að auðlind þjóðarinnar ganga í arf til örfárra fjölskyldna. Arður af auðlindinni, sem ætti að renna í ríkissjóð og sveitarsjóði og þaðan til allra barna í landinu og velferðarkerfisins, rennur nær óskiptur í vasa útgerðarmanna og þaðan beint til barna þeirra. Sérhagsmunagæsla ríkisstjórnarinnar um völd og auð þessa fólks ætti öllum að vera ljós, enda hefur hún ekkert gert til að taka á augljósum vanda.

Leið Samfylkingarinnar um útboð á aflaheimildum, aukið jafnræði og tímabundna samninga er besta leiðin út úr þessum vanda. Forgangsatriði næstu ríkisstjórnar verður að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem kveðið er á um fullt gjald og tímabindingu nýtingarleyfa. Það hallar nefnilega verulega á okkur, eigendur auðlindarinnar. Og þegar spillingarmálin blasa við sem kerfið elur af sér, verður aldrei sátt um kerfið eða breytingar sem taka ekki á rót vandans. Við þurfum ríkisstjórn sem horfist í augu við spillingarmálin og þorir að taka á þeim.

Kæru landsmenn. Stjórnarflokkarnir samþykktu á síðasta degi maímánaðar fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Sameiginlega stefna VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fyrir næsta kjörtímabil er því komin fram. Við í Samfylkingunni teljum stefnu þeirra í grundvallaratriðum ranga. Þau hyggjast ekki bæta kjör öryrkja eða eldra fólks og ætla ekki að styðja betur við barnafjölskyldur. Þau taka ekki á húsnæðismálunum og sýna lítinn metnað í aðgerðum gegn loftlagsvá af mannavöldum. Þau ætla ekki að taka myndarlega á biðlistum í heilbrigðiskerfinu eða að mæta vanda á þeim landsvæðum sem orðið hafa verst úti í heimsfaraldrinum.

Við jafnaðarmenn leggjum til aðra leið. Við viljum fjölga störfum og auka græna verðmætasköpun. Við viljum tryggja aðgang að heilsugæslu og efla öryggismál um land allt. Og við munum bæta kjör barnafólks, öryrkja og eldra fólks og draga úr skerðingum sem hvergi í kringum okkur tíðkast í jafn ríkum mæli og hér. Með réttlátri tekjuöflun munum við auka jöfnuð og hagsæld.

En ríkisstjórnin vill frekar leggja ofuráherslu á að ná ákveðnu skuldahlutfalli, sem er þó nú þegar mjög lágt í öllum alþjóðlegum samanburði. Þau ætla að fara gömlu niðurskurðarleiðina á næsta kjörtímabili ef þau komast í þá stöðu, leið sem ekkert annað land er að fara. Þau hafa tekið pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð og búa enn betur í haginn fyrir auðmenn, verði þau saman við völd eftir kosningar. Það er í okkar höndum, kæru landsmenn, að koma í veg fyrir það. — Góðar stundir.