151. löggjafarþing — 108. fundur,  7. júní 2021.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Góðir Íslendingar. Nú þegar sér fyrir endann á heimsfaraldrinum, er líkt og hulu eða grímu sé svipt frá andlitinu og við þurfum að horfast í augu við verkefnin sem blasa við okkur. Verkefni sem sum hafa legið í dvala vegna faraldursins eða verið lögð vísvitandi til hliðar í skjóli Covid, sem hefur því miður verið notað sem afsökun fyrir því að ná ekki stórum málum í gegn hér á Alþingi. Það vita allir að loftslagsmálin og umhverfismálin eru stóra verkefnið. Það er því meira en dapurlegt að grundvallarmál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar af hálfu Vinstri grænna, miðhálendisþjóðgarðurinn, mun ekki nást í gegnum þingið nú fjórum árum síðar. Málið var eitt stærsta, ef ekki stærsta mál VG við myndun ríkisstjórnarinnar og margir fögnuðu því að að minnsta kosti skyldi ráðist í þetta gamla baráttumál. Það er ekki svo að heimsfaraldur hafi komið í veg fyrir að miðhálendisþjóðgarður hafi orðið að veruleika, heldur annars konar plága sem er andstaða Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Því að ekki hefur heimsfaraldurinn hindrað hjartans mál hinna flokkanna, eins og áform um sölu Íslandsbanka eða niðurlagningu skattrannsóknarstjóra.

Kæru landsmenn. Loftslags- og umhverfismálin hafa verið í gíslingu Sjálfstæðisflokksins allt þetta kjörtímabil. Þau hafa náð því fram að metnaðurinn væri lítill, lítil skref tekin og engin róttækni leyfð. Og því miður hefur flokkurinn sem leiðir við ríkisstjórnarborðið guggnað á fleiri hápólitískum umhverfismálum. Má þar nefna vegalagningu um Teigsskóg, sem um gilda sérlög og hefur að auki sérstaka vernd í náttúruverndarlögum. Engin afdráttarlaus pólitísk lína hefur verið gefin út vegna virkjunaráforma í Hvalá á Ströndum, heldur treyst á lagaþrætur og dóma til að tefja málið. Rúmt ár tók að banna plastpokanotkun, sem var nokkuð einföld EES-innleiðing, sem lönd á borð við Albaníu höfðu löngu klárað á undan Íslandi, að ógleymdu alvöruauðlindaákvæði.

Kæru áheyrendur. Árið 2020 átti að vera upphafið á áratug aðgerða í loftslagsmálum. Og þótt heimsfaraldurinn hafi sett strik í þann reikning hafa nágrannaríki okkar sýnt að þeim er full alvara með því að leggja áherslu á græna viðspyrnu og græna endurreisn út úr Covid-19. Slíkar aðgerðir hafa verið í skötulíki hér. Hér á landi þurfa aðgerðir gegn loftslagsbreytingum að vera skýrar en ekki loðnar. Markmiðin þurfa að vera hærri og metnaðarfyllri. Fjárfestingar í grænum, loftslagsvænum aðgerðum þurfa að vera meiri. Meiri fjármuni þarf að veita í rannsóknir og nýsköpun. Tækniþróun þarf að hverfast um loftslagsmarkmið. Setja þarf miklu meiri kraft í almenningssamgöngur og orkuskiptin þurfa að ganga hraðar fyrir sig. Enduruppbygging ferðaþjónustunnar á að vera á forsendum sjálfbærni. Ísland hefur nefnilega svo ótal mörg tækifæri til að vera leiðandi í aðgerðum í umhverfis- og loftslagsmálum og þá þýðir ekki að tala um lagningu hitaveitunnar fyrir rúmum 70 árum síðan við erlenda ráðamenn, heldur horfa á óteljandi framtíðarmöguleika okkar. Umskiptin vegna loftslagsbreytinga verða líka að vera sanngjörn. Metnaðarfull áætlun í loftslagsmálum getur nefnilega í senn skapað fjölda starfa, náð árangri í glímunni við ójöfnuð og stefnt að kolefnishlutleysi.

Kæru landsmenn. Heimsfaraldurinn hefur aukið ójöfnuð og varpað ljósi á veikleika og óréttlæti samfélaga okkar. Því miður hafa sumir nýtt faraldurinn til að grafa undan alþjóðasamvinnu. Þá verður að standa vörð um kjarnagildi mannréttinda, frelsis og jafnréttis. Alþjóðasamvinna hefur verið lykilatriðið í viðbragðinu við Covid. Án Evrópusamvinnunnar hefðum við ekki getað tryggt okkur aðgang að jafn miklu bóluefni og raun ber vitni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur staðið vaktina og samstarf vísindamanna og sérfræðinga við þróun bóluefnis hefur sannað gildi alþjóðasamvinnu svo um munar. En áskoranir alþjóðlegrar samvinnu ná yfir í gríðarlega brýn verkefni eins og loftslagsvána, sameiginlega baráttu fyrir auknu félagslegu réttlæti og undirbúning okkar fyrir stafrænu byltinguna.

Samstarfsríki okkar í Evrópusambandinu hafa verið leiðandi í aðgerðum um græna endurreisn, en líka í því að leiða saman ólík Evrópuríki til að samþykkja sáttmála um málefni flóttafólks. Og þeir íslensku stjórnmálamenn sem tala niður ábyrgð okkar þegar kemur að móttöku fólks á flótta ættu að hugsa sinn gang. Ábyrgð okkar er nefnilega siðferðisleg og mannúðleg. Hún snýst um að virða mannréttindi og halda í heiðri mannúð gagnvart þeim sem eru í langviðkvæmustu stöðunni, sem flýja heimili sín vegna stríðsátaka, loftslagsbreytinga eða sárafátæktar. Svei þeim sem tala niður sammannlega ábyrgð okkar í að taka á móti fólki á flótta með opnum örmum. Það eru ekki stjórnmál sem bæta samfélagið eða lífsgæði. Það eru stjórnmál haturs og ótta, rangfærslna og útúrsnúninga. Börn á flótta eru ekki glæpagengi. Fjölskyldufólk sem vill frið og ró er ekki glæpagengi. Utanríkismál snúast um alþjóðasamvinnu, mannréttindi, virðingu fyrir lögum og reglum og eflingu lýðræðis. Þar eigum við að vera. Ekki bogin og hrædd, ekki ala á ótta og einangrun, heldur standa bein í baki, opin og full sjálfstrausts á alþjóðasviðinu.

Kæru landsmenn. Megi næstu sumarmánuðir færa okkur betri heilsu, lífsgæði, bjartsýni og gleði og góða, græna félagshyggjustjórn eftir komandi alþingiskosningar.