151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[14:09]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég ætla að upplýsa þjóð og þing um svolítið áhugavert. Væntanleg er stór alþjóðleg kvikmynd með Nicole Kidman og Alexander Skarsgård í aðalhlutverki. Þetta er víkingamynd sem gerist á Íslandi. En vitið þið hvað? Hún er tekin upp á Írlandi. Íslenskir hellar og landslagið er búið til á Írlandi. Af hverju? Vegna þess að endurgreiðslukerfið er betra á Írlandi en á Íslandi. Það munar ekki miklu en það munar þó. Við getum breytt þessu hér með einu pennastriki. Við getum hækkað endurgreiðsluna úr 25% í 35%. Það er allt og sumt. (Gripið fram í.) Þetta væri aðgerð sem myndi búa til pening. Hugsið ykkur: Býr beinlínis til pening. En það er eins og stjórnvöld — ég er búinn að halda margar ræður um þetta — átti sig ekki á því að það fer ekki króna út úr ríkiskassanum fyrr en miklu fleiri krónur hafa komið inn í hann áður.

Ég velti fyrir mér: Kæri þingheimur. Væri þetta ekki sniðug aðgerð á tímum fjöldaatvinnuleysis og við fengjum síðan góða menningu í kaupbæti? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)