151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við höfum gert breytingar og aukið ívilnanir í endurgreiðslur vegna framleiðslu á kvikmyndum á Íslandi. Þar munar miklu. Við endurgreiðum milljarða vegna framleiðslu á efni á Íslandi en við þurfum að vanda hvert viðbótarskref. Ég held að það sé ekki þannig að við fáum ávallt fleiri krónur eftir því sem við setjum fleiri krónur í endurgreiðslu í kvikmyndagerð. Og það er ekkert endilega svo að okkar besta fyrirmyndarland sé það land sem endurgreiðir mest, það hefur verið mikið kapphlaup milli ríkja. En það sem við getum þó sagt er að við höfum margt að bjóða. Við höfum ekki verið með mikinn skort á verkefnum heldur hefur verið mikil ásókn, langar raðir að því að komast á listann og við þurfum að forgangsraða fjármunum. Ég held við þurfum líka að meta það hvort við höfum fengið allt það út úr þessu sem við höfum stefnt að. Við stöndum núna frammi fyrir stærri spurningum á borð við þá hvort ekki sé betra að vera á breiðari grundvelli við að laða til okkar kvikmyndaframleiðslu og þáttagerð, t.d. með því að hér verði til á Íslandi stærri svokölluð stúdíó.