151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[14:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál sem gæti virkað lítið en hefur samt sem áður mjög svo mikla þýðingu fyrir býsna marga. Þeir sem hafa talað hér hafa bent á þann punkt að það séu ekki allir settir undir sama hatt hvað varðar stuðning, en þar er sérstaklega verið að tala um íþróttafélögin sem stuðningurinn nær til. Það eru þó önnur samtök sem eru skilin eftir, eins og KFUM og KFUK, sem njóta ekki þessa úrræðis, ekki í þetta sinn og heldur ekki áður. Ég ætla að byrja aðeins á að ræða þann hluta.

Það er svolítið merkilegt að í meirihlutaálitinu sem kom frá velferðarnefnd, ég er á því með fyrirvara, fannst mér ansi klént að geta ekki tekið til æskulýðsstarfs sérstaklega. Við fengum á sínum tíma ágætisupplýsingar um hvað þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir KFUM og KFUK og þá erum við kannski að tala um yngri krakka, börn og ungmenni. Ef við setjum það í tölulegt samhengi þá standa um 20–25% af heildaræskulýðsstarfi utan íþróttahreyfingarinnar sem við skiljum eftir eina ferðina enn. Við erum að tala um úrræði sem mun vera í nokkra mánuði og það hefði verið æskilegt að taka alla undir.

Ef við setjum þetta í annað samhengi þá jafnast þessi 20–25% á við kannski fjögur til fimm íþróttafélög, þannig að ef það væru fjögur til fimm íþróttafélög til viðbótar hefði stuðningurinn náð til þeirra. Þetta er alls ekki stór fjárfesting, eins og við sáum í umsögn frá KFUM og KFUK, ekki stór skuldbinding fjárhagslega, en mjög svo mikilvæg. Þetta er réttlætismál og mikilvægt fyrir þær æskulýðshreyfingar sem eiga í hlut. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að íþróttafélög gegna lykilhlutverki á margan hátt, en þetta er samt sem áður annað íþróttastarf. Hér er um að ræða skátahreyfinguna, KFUM og KFUK, UMFÍ, skáksambandið og LUF. Þetta eru allt aðilar sem starfa á grundvelli æskulýðslaga og hafa gert samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í rauninni má halda því fram að við séum að mismuna sérstaklega þeim aðilum sem ekki eru teknir með, þeir eru skildir eftir af því að þeir heita ekki íþróttafélag.

Ég ímynda mér að þau börn og ungmenni sem sækja Vatnaskóg hverju sinni sitji ekki bent á rassinum. Ég held að það væri vel hægt að flokka það undir íþróttastarf þó að það sé kannski ekki íþróttastarf eins við þekkjum, en hreyfing og íþróttir eru svo sannarlega stundaðar þarna. Það hefði ekki verið erfitt að breyta þessu máli þannig að það næði til þessa æskulýðsstarfs. Það hefði ekki kostað mikið og ávinningurinn hefði verið heilmikill. Það er líka annað í þessu, þ.e. þau skilaboð sem við verðum þá að senda, að það skipti máli hvar maður velur að eyða sínum frítíma sem sjálboðaliði þannig að maður eigi séns á að halda áfram því góða starfi. En þarna er sem sagt skilið á milli, hvort þetta eru skilgreind íþróttafélög eða skilgreint æskulýðsstarf.

Mér finnst mikilvægt að það komi fram þegar við ræðum þetta að við erum vísvitandi að skilja þennan hóp eftir, börn og ungmenni. Þetta eru oft krakkar sem ekki finna sig í skipulögðu íþróttastarfi. Á sama tíma erum við einmitt að ræða um að við þurfum að passa upp á að börn einangrist ekki félagslega. En mörg börn og ungmenni haf ekki getað sótt skóla almennilega. Mörg börn eru með undirliggjandi þætti sem hafa gert það að verkum að þau hafa haldið sig sem mest heima við. Við sjáum kannanir og rannsóknir sem benda til þess að geðheilsu barna og ungmenna fari hrakandi. Samt sem áður er valið að skilja þennan hóp eftir. Mér finnst það miður og mér finnst mjög mikilvægt að það komi hér fram, að það væri lítið mál að taka inn þennan hóp, bara í sumar. Það er aðallega það sem verið er biðja um.

Annað í þessu er að nemar eru líka skildir eftir. Það er þá önnur ástæðan fyrir því að ég var með fyrirvara á þessu. Þeir eru skildir eftir. Okkur bárust fréttir um að þann 3. júní hafi 9.700 sótt um að ganga inn í átakið Hefjum störf, en núna, 8. júní hafa 2.700 manns fengið brautargengi eða fengið að hefja störf. Það hefur verið gagnrýnt að þetta sé seinvirkt kerfi, og hugsanlega er þetta seinvirkt kerfi, en ég veit fyrir víst að Vinnumálastofnun og starfsfólk hennar er að gera sitt besta, að vinna hratt. En þetta gengur bara ekki hraðar. Annað sem þetta gefur okkur vísbendingar um er að fólk vill komast út til að leggja sitt af mörkum, vegna þess að allir eru tilbúnir í sóknina sem við þurfum að fara í, okkur öllum til heilla. En það er alla vega ansi lélegt að nemar séu skildir eftir.

Það er annar hópur sem mig langar líka aðeins að ræða hér, það eru þeir einstaklingar sem hafa klárað VIRK-úrræði sem eiga einnig í erfiðleikum með að komast á vinnumarkaðinn vegna þess að sá hópur þarf oft og tíðum aðlögun að störfum og jafnvel að taka sér aðeins lengri tíma til þess að hefja aftur störf á vinnumarkaði. Ég hef af því fréttir að það hafi ekki gengið eins vel, skiljanlega, kannski vegna þess að þeir sem voru í VIRK-úrræðinu þegar Covid-faraldurinn skall á fengu t.d. ekki kynningu á atvinnumöguleikum eða áhugasviði. Var einhver misbrestur þar á, enda átti fólk kannski fullt í fangi með að sjá fram á næsta dag, ég ætla ekki að segja neitt um það. En það er fólk þarna úti sem ekki kláraði eins vel og við myndum vilja það úrræði sem VIRK hefur upp á að bjóða, sem er annars mjög gott úrræði.

Þetta leiðir mig aftur að Vinnumálastofnun og hlutverki Vinnumálastofnunar og því fólki sem langar að leggja sitt af mörkum og þarf á starfi að halda; hlutastarfi eða einhvers konar stuðningsstarfi eða aðlögun, ég veit ekki hvað má kalla það, sjálfsagt öllum þessum nöfnum. En það væri óskandi ef Vinnumálastofnun hefði þau úrræði sem þarf til að aðstoða þetta fólk því að það eru margir sem vilja gjarnan komast út á vinnumarkaðinn og hafa ekki komist áfram vegna þess að þessi faraldur skall á.

Það er merkilegt að nemar séu skildir eftir eins og raun ber vitni. Það er líka dálítið slæmt vegna þess að oft eru nemendur sem vinna með skólanum til að ná endum saman en á sama tíma öðlast þeir ekki rétt í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð þrátt fyrir að vinnuveitendur þeirra taki af þeim gjald sem felst í tryggingagjaldinu. Þannig að fólk er búið að borga í sjóðinn en það er ekki séð til þess að þetta allt saman virki saman.

Mér fannst dálítið merkilegt að halda því fram í áliti meiri hlutans í sambandi við að ekki væri hægt að leggjast í svo umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu, þ.e. að taka ekki inn æskulýðsstarfið og hleypa ekki nemendum þarna að með fullnægjandi hætti, vegna þess að þetta eru ekki stór mál og lagði hluti minni hlutans fram breytingartillögu til að koma til móts við nema. En æskulýðsstarfið bíður enn þá. Við erum eina ferðina enn að fara fram hjá þeim. Ég myndi halda að það ætti að reyna að gera allt til að sjá til þess að allir yrðu virkir þátttakendur í samfélaginu á sama tíma og við lesum um það í fréttum og heyrum að geðheilsu barna og ungmenna fer hrakandi.

Það er einn punktur enn sem mig langar aðeins að tala um, þ.e. íþróttastarfið, og bara svo það sé alveg skýrt þá er ég ekki að tala niður skipulagt íþróttastarf. Þvert á móti er ég frekar að segja að það erum við sem erum að bregðast með því að hleypa ekki fleirum að. Það er ekki það að íþróttafélögin standi sig ekki, þannig að það sé sagt. En við vitum líka að það eru ekki öll börn, ekki öll ungmenni sem finna sig í íþróttastarfi. Það er hætt við því að þessi sömu krakkar einangrist enn frekar heima hjá sér. Þetta myndi ég vilja undirstrika og þess vegna finnst mér leitt við höfum skilið eftir þessa aðila. Þetta eru skátahreyfingin, KFUM og KFUK, sem er auðvitað hluti af starfi ungmennafélaganna, skáksambandið og svo LUF. Þannig að þetta er dálítið klént af okkur, ég verð að segja það.

Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason las upp nokkur nöfn á skátafélögum hringinn í kringum landið. Það kom mér á óvart að heyra hversu mörg þau eru. Það segir mér að það er þá töluverður hópur krakka, ungmenna sem nýtur þess þá ekki sem hann gæti annars notið ef skátafélagið þeirra héti íþróttafélag. Það er kannski það sem er. Þetta er of mikið bundið í einhvers konar kerfishugsun í staðinn fyrir að taka mark á því sem að er okkur beint og okkur hreinlega leiðbeint um hvernig gera mætti betur. Þetta eru ekki það margir mánuðir. Þetta kostar ekki það mikið miðað við hvað gert hefur verið hingað til. Ef við ætlum að láta úrræði okkar ganga upp og ganga vel þannig að allir geti verið á sömu blaðsíðu til þess að geta aftur tekið þátt í því samfélagi sem við viljum helst sjá, þá er það okkar, Alþingis, að sjá til að svo verði.

Ég var sjálf í skátunum og ég naut þess. Ég tók líka þátt í íþróttastarfi á vegum UMFÍ. Þetta skiptir allt máli. Ég segi þetta bara vegna þess að svona störf, svona þátttaka fylgir manni um alla framtíð og gerir börn og ungmenni vonandi að betri manneskjum og, sem ekki er minna virði, býr þau undir þátttöku í þessu góða samfélagi okkar.