151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:27]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar og þetta tímaferðalag. Jú, það gekk mikið á hér í desember fyrir lok haustþings þegar sú sem hér stendur var að reyna að vekja þingmenn meiri hlutans upp af draumi sínum þegar kom að greiðslum til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna. Einstaka þingmenn litu svo á að ef fólk fengi verktakagreiðslur væri það líklega af því að það vildi svína á skattinum, eins og það væri eitthvert samasemmerki milli þess, en áttuðu sig ekki á því að til þess að fá stuðning þá þarf fólk að vera búið að gefa upp verktakagreiðslurnar sínar. Það þarf að vera alveg ljóst að þær greiðslur hafi átt sér stað þannig að þetta voru óþarfar áhyggjur, og rétt munað hjá þingmanninum, meiri hlutinn felldi þá tillögu mína í fyrstu umferð.