151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er þetta með yfirlitið og yfirsýnina yfir það hvernig úrræðin hafa verið að virka. Það skortir algerlega á það, því miður. Það er á vissan hátt skiljanlegt af því að við vorum í svona hamfaraflóði af verkefnum en líka alveg ofboðslega óheppileg staða af því að við erum að framlengja úrræði sem við vitum ekki alveg hvernig virkuðu.

Við erum að búa til ný úrræði sem við vitum heldur ekki alveg hvernig virka og ekki síður það að búa til úrræði og grípa og búa til hvata í leiðinni fyrir fyrirtæki til þess að segja upp fólki og ráða á örlítið öðruvísi forsendum. Það er þetta sem er svo vont að við náum ekki að skoða með fullnægjandi hætti. Ég held að við verðum bara saman í því í haust að fara í alvöruátak í að rannsaka hvernig þetta gekk hjá fyrri ríkisstjórn þegar við verðum komin saman í ríkisstjórn.