151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:43]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns þá komst ég ekki hjá því að fara að hugsa um orð Staffords Beers sem talaði um það að hlutverk kerfis er það sem kerfið gerir. Sem sagt, það er hægt að leggja upp með einhvers konar fínt markmið en raunverulega markmiðið er birtingarmynd þess hvað það gerir.

Þegar hv. þingmaður var að lýsa því að fólk færi að hafna störfum sem krefjast þess að það myndi keyra jafnvel tugi hundruða kílómetra til að mæta til vinnu og væri augljóslega að hafna því, þá fór ég að hugsa: Hvað er markmiðið? Hvernig er þetta kerfi að þjóna hlutverki sínu eða er hlutverkið að neyða fólk til að vinna í einhvers konar svona verstöðinni Ísland, vistarbandakonseptið, eða er markmiðið að auka framleiðni og skilvirkni samfélagsins þannig að allir geti notið góðs? Ég kemst ekki hjá því að hugsa að raunverulega markmiðið sé einmitt ekki annað en að láta alla neyðast til að sýna hversu duglegir þeir séu. Getur hv. þingmaður tekið undir þetta?