151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[16:49]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að andsvörin sem ég fór í við hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur voru kannski góður inngangur að því sem ég ætla að fjalla um í sambandi við þetta mál. Ég ætla að taka fyrir tvennt; annars vegar hlutverk vinnu og mælikvarðanna sem við notum fyrir vinnu og hvernig það tengist allt saman inn í atvinnuleysistryggingakerfið, og hins vegar nokkur atriði sem sýna galla á því hvernig við notum kerfið í dag, sem hefði kannski verið fullt tilefni til þess að laga í þessu frumvarpi.

Ég get tekið undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur að allir vilja upplifa sig gagnlega. Allir vilja gera eitthvert gagn, bæði fyrir sjálfa sig og samfélagið. Fyrir vikið er mannkyninu almennt frekar eðlislægt að vinna, held ég. Það er nokkuð sem flestir njóta þess að gera, þó kannski ekki allir alltaf á sömu forsendum. Sumir kunna betur við að sitja og lesa og skrifa og búa til einhverja þekkingu á meðan aðrir verða órólegir ef þeir fá ekki að vinna með höndunum. Ég segi fyrir sjálfan mig: Ég er svona sitt lítið af hvoru. Ég verð oft rosalega órólegur hérna á þingi vegna þess að það er ekki nægilega mikil líkamleg vinna fólgin í þessu nema kannski helst að hlaupa upp og niður stiga.

Allt þetta er gott og gilt, en við verðum samt líka að átta okkur á því að samfélagið er ekki eins og það var fyrir 100, 200, jafnvel 500 eða 1000 árum, vegna þess að það hafa orðið alveg gríðarlegar tækniframfarir og annað. En þrátt fyrir allar þessar breytingar og framfarir styðjumst við enn við mælikvarða sem eru heldur einfeldningslegir og voru mögulega aldrei réttir. Þá er ég kannski fyrst og fremst að tala um annars vegar þennan sígilda mælikvarða á hagvöxt og hins vegar atvinnuleysisprósentu. Ef maður horfir á efnahagslega tölfræði frá hvaða landi sem er þá er atvinnuleysisstig alltaf eitt af því fyrsta sem er nefnt og lönd eru hreinlega borin saman á grunni þess hversu mikið atvinnuleysið er, bæði raunatvinnuleysi og svo falið atvinnuleysi þar sem gráir markaðir eða óformlegir markaðir koma inn í.

Ég vil meina að þessir tveir mælikvarðar séu ótrúlega góðir til þess annars vegar að framfylgja ákveðnu siðferði, sem er rangt, og hins vegar til að búa til ímynd endalauss vaxtar, sem er ekki endilega jákvæð heldur. Það væri miklu betra að mæla framleiðsluspennu annars vegar og framleiðni eða framleiðslu hins vegar, vegna þess að markmið hagkerfisins er ekki bara að allir vinni alltaf öllum stundum og að við framleiðum sem allra mest. Ef það væri markmiðið þá væri mjög óeðlilegt að vera með eitthvað eins og frítíma eða sumarfrí eða orlof eða eitthvað þannig. Við myndum bara láta alla vinna öllum stundum. En það er ekki markmiðið. Markmiðið er miklu frekar að tryggja gnægð; tryggja næga framleiðslu á matvælum, á húsnæði, á fatnaði, á öllu því sem við þurfum, og að tryggja velferð; að fólk sé laust við sjúkdóma, hafi menntun, hafi aðgang að þekkingu og einhverju sem lyftir upp tilverunni, gerir hana áhugaverða og eftirsóknarverða.

Með því að nýta réttari mælikvarða eins og framleiðsluspennu getum við kannski losað okkur aðeins við þá tilhneigingu að vera alltaf að vinna vinnunnar sjálfrar vegna, og farið að búa til hagkvæmari og betri nýtingu á mannlegri framleiðslugetu og mannlegu hugviti, en líka þeim tækjum og búnaði sem er til hverju sinni, vegna þess að framleiðsluspenna er ekkert annað en mælikvarði á hversu mikið tæki og húsakostur og fólk eru nýtt í hagkerfinu. Höfum í huga að full nýting, 100% nýting á öllu sem til, er ekki endilega góð vegna þess að þegar offramboð er á verkefnum sem þarf að vinna, sem liggur jafnvel svolítið á að vinna, þá verður til ákveðin forgangsröðun innan hagkerfisins sem takmarkar möguleika á að tæki og fólk geti farið í þau verkefni þar sem þau nýtast best. Þá verður til pressa á að fólk fari í þau verkefni sem eru í boði, í engri sérstakri röð, án tillits til menntunar, án tillits til hæfni, án tillits til vilja, og fari frekar í að gera bara það sem þarf að gera. Þetta er svolítið vertíðarstemningin, bara allir upp á dekk og byrja að moka, sem er gott og gilt í einhverjum afmörkuðum tilfellum og stundum óhjákvæmilegt.

En þegar við erum að tala um þróað, tæknivætt 21. aldar samfélag þá getum við gert betur. Við sjáum að við getum gert betur í því að hámarka framleiðsluspennuna hverju sinni, að vera alltaf með hana í toppstöðu. Það er það sem kallað er pareto-óhagkvæmt, að það eru svo margar augljósar og einfaldar leiðir til að breyta hlutum, færa til tæki, vinnuafl o.s.frv., með þeim afleiðingum að allir græða eða alla vega að enginn tapar. Og þegar við skoðum hvernig íslenskt hagkerfi er í samanburði við önnur hagkerfi hefur verið áberandi í marga áratugi að Ísland er með litla og lélega framleiðni samanborið við mörg önnur lönd. Þessi litla framleiðni þýðir ekki að fólk vinni lítið, langt því frá, heldur vinnur fólk mjög mikið, en framleiðnin er lítil þrátt fyrir það. Það hversu mikið er framleitt á hverja tímaeiningu eða á hverja vinnueiningu er lítið í samanburði við það sem við gætum við verið að gera. Ástæðurnar gætu verið fjölmargar; það er mikil yfirbygging, mikil flækja og margar reglur sem þarf að fara eftir. Það er klassískt að benda á það.

En getum við ekki líka horft svolítið á það að það er rosalega algengt að fólk vinni störf sem ekki eru tengd menntun þess, sem samræmast ekki hæfileikum þess, vegna þess að það fær hreinlega betri laun t.d. hjá flugfélagi en á sjúkrahúsi eða betri laun í ferðaþjónustu en sem verktakar eða hvað sem það er? Eitthvað drífur fólk til að gera eitthvað þar sem verður í rauninni einhvers konar tap. Ég ætla ekki að segja að fólk eigi ekki rétt á því að vinna við það sem því sýnist. En eðli góðs og öflugs hagkerfis hlýtur að vera að fólk geti valið sér og vilji velja sér þá hluti sem eru bæði hagkvæmastir og gagnlegastir og skemmtilegastir fyrir það sjálft en eru um leið gagnlegastir fyrir hagkerfið í heild.

Í þessu samhengi, þegar maður horfir á lög um atvinnuleysistryggingar, bæði lögin í heild sinni eins og þau standa í dag en líka hvernig þau eru nýtt, kemst maður ekki hjá því að sjá einhvers konar mótmælendasiðferði, einhvers konar dyggðamenningu. Fólk þykir ekki duglegt í samfélaginu nema það vinni 80 tíma á viku og einhvern veginn byrjar allt að brotna um leið og fólk fer að tala um að reyna að vinna betur og snjallar frekar en að vinna meira. Ég óttast að lögin eins og þau eru í dag ýti undir þessa óhagkvæmni með því m.a. að neyða fólk til að taka hverri þeirri vinnu sem býðst þegar það lendir af einhverjum orsökum utan vinnumarkaðar. Þar af leiðandi ætla ég að leggja til að ágæt breytingartillaga frá hv. þingmönnum Halldóru Mogensen, Guðmundi Inga Kristinssyni og Helgu Völu Helgadóttur verði samþykkt vegna þess að í henni er m.a. lagður til nýr málsliður þar sem talað er um að líta eigi til þess við boð á starfi hvort það hæfi starfsreynslu og menntun viðkomandi umsækjanda. Það væri einn liður, mjög lítill en gagnlegur þó, til þess að laga aðeins einn ákveðinn veikleika í hagkerfinu í heild.

Ég ætla ekki, hreinlega vegna tímaskorts, að tala um þá fáránlegu hugmynd að fólk sé markvisst að misnota kerfið. Fólk sem er lengi á atvinnuleysisskrá er það af ótrúlega mörgum, ólíkum ástæðum. Það getur svo sem vel verið að einhverjir séu að misnota það. En í stóru myndinni held ég að það sé gagnlegra að reyna að hvetja fólk til dáða en að reyna að elta uppi einhverja sökudólga sem eiga að skammast sín samkvæmt einhverjum hefðbundnum viðmiðum um það hvernig fólk eigi að ráðstafa tíma sínum.

Í staðinn ætla ég aðeins að tala um aðra veikleika sem orðið hafa meira áberandi í Covid-faraldrinum og öllu sem hefur verið að gerast. Allt í einu varð mjög mikið atvinnuleysi og mörg fyrirtæki drógu allverulega saman seglin. Og núna, þegar hagkerfið er að taka við sér aftur, verður ákveðin hætta á undirboðum, að fólk nýti sér það að margir séu í leit að atvinnu sem leið til þess að lækka laun í samfélaginu. Út frá hugmyndafræði um frjálsan markað skil ég það mjög vel og í rauninni þætti mér það svolítið undarlegt ef svo væri ekki. Ég myndi samt vilja undirstrika mikilvægi þess að þegar verið er að ráða í störf eftir svona faraldur og eftir svona mikla aukningu á atvinnuleysi, sé horft til sanngirni annars vegar og stuðst við gildandi kjarasamninga hins vegar, að ekki sé verið að nota tækifærið til þess að færa til, töluvert mikið í einhverjum tilfellum, frá launapotti starfsmanna yfir í útgreiddan hagnað eigenda. Það kann að líta mjög vel út fyrir einhverja eigendur til skamms tíma en til lengri tíma litið er ég nokkuð viss um að þetta muni leiða af sér kergju, óánægju og jafnvel að fyrirtæki muni eiga erfiðara uppdráttar. Eins og Henry Ford komst að á sínum tíma voru miklu fleiri sem gátu keypt bíla þegar starfsmennirnir fengu betri laun. Það spilar allt saman og auðvitað mun fólk þurfa að hafa peninga á milli handanna til að geta nýtt sér þjónustuna, hvers eðlis sem hún er.

Að lokum ætla ég að nefna einn galla sem komið hefur í ljós varðandi þau vinnumarkaðsúrræði og úrræði fyrir fyrirtæki sem verið hafa í gangi varðandi Covid. Nýlega hafa margir einyrkjar í ferðaþjónustu, sem hafa jafnvel rekið sín fyrirtæki árum saman, verið að lenda í því að vegna þess að þeir eru skráðir hjá Vinnumálastofnun og voru á hlutabótaleið eða í annars konar úrræði þegar faraldurinn stóð sem hæst, eru allt í einu farnir að fá boðanir um að tékka á vinnu hér og þar, þrátt fyrir að þetta séu aðilar með eigin fyrirtæki, sem hafa verið með sín eigin fyrirtæki mjög lengi, og eru jafnvel í startholunum með að fara af stað aftur í rekstur í ferðaþjónustu eða á öðrum sviðum, hvað svo sem það kann að vera. Ég hef aðallega heyrt þessar sögur frá ferðaþjónustuaðilum. Ég vil leggja til að farið verði mjög varlega í þetta vegna þess að samkvæmt reglunum á Vinnumálastofnun að leiða fólk út í þessa vegferð, samanber það sem ég ræddi í stærstum hluta þessarar ræðu. En það er kannski eðlilegra að við horfum til þess að þetta eru undarlegar og sérstakar aðstæður þar sem voru búin til úrræði sem pössuðu ekki fullkomlega við það hvernig atvinnuleysisbótakerfið var hannað. Verið var að púsla saman hlutum sem pössuðu ekkert endilega saman. Hættan er sú að þetta verði til þess að lítil fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu og öðrum þjónustugeirum, verði fyrir skaða sem yrði hreinlega erfitt að vinda ofan af. (Forseti hringir.) Ég legg til að við pössum upp á þetta og sýnum sanngirni.