151. löggjafarþing — 109. fundur,  8. júní 2021.

atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.

775. mál
[17:12]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég skilji hvað hv. þingmaður er að fara og ég tek undir það að vissu leyti. En aftur ætla ég að fá að hreyfa aðeins markstangirnar. Eins og fjölskyldulífi og bara lífi fólks hefur verið stillt upp undanfarið, ég veit ekki hversu lengi en alla vega töluvert lengi, þá skiptist tími manna nokkurn veginn þannig að sirka þriðjungur sólarhringsins fer í svefn, sirka þriðjungur fer í vinnu og síðan er þriðjungur sem er frítími nema þar af er allur tíminn til að borða og þrífa sig og sinna öllu sem þarf að sinna sem er ekki beinlínis vinna eða svefn. Fyrir vikið hefur orðið til sú menning að stór hluti af félagslífi fólks á sér stað á vinnustaðnum. Það er bara gott og blessað nema það gerir kannski ekki ráð fyrir því að sumir kunna bara ekkert endilega sérstaklega vel við vinnufélaga sína, sumir vilja kannski eiga félagslíf annars staðar, í öðru samhengi. Eitt af því sem gerist þegar framleiðslan í samfélaginu verður svona mikil og gnægtin verður svona mikil er að við höfum möguleikann á því að stytta vinnuvikuna, búa til meira svigrúm til að fólk geti í meira mæli en verið hefur sótt í félagsskap og einmitt sinnt þessari félagslegu hlið, sem ég er sammála hv. þingmanni um, á öðrum vettvangi en endilega bara innan vinnunnar eða innan fjölskyldunnar. Við sjáum mörg dæmi um það nú þegar fólk hefur þennan aukna sveigjanleika og aukna frítíma, er virkara í félagsstarfi, er virkara í listsköpun, er virkara á ótal mörgum öðrum sviðum — ekki endilega á sviðum sem færa því laun en lífið snýst kannski ekki endilega bara um peninga hjá öllum, heldur eitthvað sem gefur fólki eitthvað annað og ýtir einmitt undir þessa félagslegu virkni en hv. þingmaður bendir réttilega á mikilvægi hennar. Ég vona að þetta svari spurningunni.